BIODICE

Málstofa BIODICE um náttúrufræðimenntun með áherslu á líffræðilega fjölbreytni

Laugardagurinn 14. október kl 13:35-15:15. Málstofan fer fram á íslensku.

BIODICE stendur fyrir málstofu um náttúrufræðimenntun á Líffræðiráðstefnunni 2023 sem haldin verður 12.-14. október. Málstofan fer fram í stofu N-132 í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Áhersla verður lögð á hugtakið líffræðilega fjölbreytni og innleiðingu þess á öll skólastig. Jafnframt verður farið í helstu áskoranir sem tengjast innleiðingunni og stöðu náttúruvísindanáms í skólum.

Líffræðileg fjölbreytni og loftslagsmál eru ein stærstu mál samtímans og miklar áskoranir tengjast málaflokkunum, bæði í nútíð og framtíð. Til að geta tekist á við þessar áskoranir er nauðsynlegt fyrir komandi kynslóðir að vera vel vopnum búnar náttúrulæsi og skilningi á virkni vistkerfa, líffræðilegri fjölbreytni og tengslum þessara hugataka við umhverfisbreytingar. Mikilvægi menntunar og fræðslu er óumdeilanleg og er sérstök áhersla lögð á þetta í samningnum sem undirritaður var í Montréal í Kananda í desember 2022 á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, COP15. Ísland er aðili að þessum samningi og er því skuldbundið til að grípa til aðgerða í samræmi við það.

Í málstofunni verður tekið saman hvað kemur fram í samningi Sameinuðu þjóðanna og snýr sérstaklega að menntun, hvernig hægt sé að bregðast við þeim áskorunum sem felast í samningnum og hvaða leiðir eru færar til innleiðingar.

Viðburðurinn er hluti af Hátíð líffræðilegrar fjölbreytni 2023 sem BIODICE stendur fyrir en markmið hátíðarinnar er að ná til sem flestra til að vekja athygli á hugtakinu og þýðingu þess. Nánar um dagskrá hátíðarinnar má finna á https://biodice.is/hatid2023/.

Fundarstjóri: Bjarni K. Kristjánsson, prófessor við Háskólinn á Hólum

Fram koma: 

Líffræðileg fjölbreytni – mikilvægasta mál samtímans. Ragnhildur Guðmundsdóttir, sérfræðingur og safnkennari hjá Náttúruminjasafni Íslands

Umgjörð Aðalnámskrár grunnskóla um náttúruvísindamenntun. Haukur Arason, dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. 

Barnið vex en bókin ekki. Andri Már Sigurðsson, ritstjóri náttúrufræðigreina Menntamálastofnun

Kennsluhættir náttúrufræða í skyldunámi. Svava Pétursdóttir, lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Meira um rannsóknina hér.

Grænfáninn: árangur og áskoranir í þemanu lífbreytileiki. Rannveig Magnúsdóttir, sérfræðingur hjá Landvernd

Veganestið – Hvert stefnum við og hver eru sóknarfærin? Edda Elísabet Magnúsdóttir, lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands

Fundarstjóri stýrir umræðum að erindum loknum.

2023-10-05