20. árg. 8. tbl. september 1999.
FYRIRLESTUR
Miðvikudaginn 27. október mun Guðmundur Guðmundsson flytja fyrirlestur sem nefnist
Rannsóknir á farleiðum farfugla með hjálp ratsjár í þremur leiðöngrum um Norðurheimsskautssvæðið 1994-99.
Sagt verður frá þremur leiðöngrum á vegum sænsku heimsskautarannsóknastofnunarinnar um norðurhöf í máli og myndum og greint frá helstu niðurstöðum rannsókna á farfuglum. Fyrsti leiðangurinn (Tundra Ecology-94) var farinn um “Norðausturleiðina” sumarið 1994 með ströndum Síberíu, allt frá Kólaskaga í vestri að Wrangeleyju í austri. Annar leiðangurinn (Arctic Ocean-96) var farinn sumarið 1996 um austanvert Norðuríshafið og á Norðurpólinn. Þriðji leiðangurinn (Tundra Northwest-99) var farinn um “Norðvesturleiðina” síðastliðið sumar.
Fyrirlesturinn verður haldinn í Lögbergi, stofu 101 og hefst kl. 20:00.
Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Rannsóknir á farleiðum farfugla með hjálp ratsjár í þremur leiðöngrum um Norðurheimsskautssvæðið 1994-99.
Sagt verður frá þremur leiðöngrum á vegum sænsku heimsskautarannsóknastofnunarinnar um norðurhöf í máli og myndum og greint frá helstu niðurstöðum rannsókna á farfuglum. Fyrsti leiðangurinn (Tundra Ecology-94) var farinn um “Norðausturleiðina” sumarið 1994 með ströndum Síberíu, allt frá Kólaskaga í vestri að Wrangeleyju í austri. Annar leiðangurinn (Arctic Ocean-96) var farinn sumarið 1996 um austanvert Norðuríshafið og á Norðurpólinn. Þriðji leiðangurinn (Tundra Northwest-99) var farinn um “Norðvesturleiðina” síðastliðið sumar.
Leiðangrarnir 1994 og 1999 voru fjölbreyttir landvistfræðileiðangrar, en skip voru notuð til að flytja vísindamenn á milli rannsóknarstöðva þar sem þeim var flogið í land til vinnu í einn til tvo sólarhringa. Leiðangurinn um Norðuríshafið var farinn á sænskum ísbrjóti. Í öllum tilfellum var ratsjá (s.k. “tracking radar”) með í för sem notuð var til að fylgjast með ferðum farfugla í grennd við skipið.
Með ratsjá af þessu tagi er hægt að fylgja einstökum fuglum eða hópum allt að 20 km frá skipinu. Upplýsingar um lárétta og lóðrétta stefnu, auk fjarlægðar að fuglunum er skráð og því hægt að endurskapa feril þeirra í þrívíðu plani. Þar fást því upplýsingar um flugstefnu, flughæð, láréttann flughraða yfir jörðu sem og lóðréttann. Út frá mælingum á vindhraða má svo reikna raunverulegan hraða (“airspeed”) og stefnu fuglanna.
Radarrannsóknir með ströndum Síberíu gáfu um 1500 flugferla sem unnið hefur verið úr. Þar komu fram allskýr mörk milli farleiða í vestur (Afríka, Atlantshaf) og austur (Ameríka, Kyrrahaf) skammt austan Taymyrskaga að haustlagi. Athyglisvert var að rúmlega fimmtungur fugla á austurleið stefndu norðan við austur og flugu út yfir Íshafið.
Til þess að kanna hvort farleiðir fugla liggi yfir innanvert Norðuríshaf tókum við þátt í rannsóknarleiðangri þangað sumarið 1996. Getgátur hafa verið uppi um slíkt í nokkra áratugi og farleið oft dregin á kort ásamt spurningarmerki. Það er skemmst frá því að segja að ekki varð nokkurra farfugla vart í yfir 200 klukkustunda leit með ratsjánni á tímabilinu 24. júlí til 18. september.
Í leiðangrinum sumarið 1999 um heimsskautahéruð Kanada voru um 800 flugferlar farfugla skráðir. Þar fékkst mikilvæg tenging við niðurstöður frá Síberíu, því farfuglar komu í háflugi (2-4 km hæð) úr norðvestri yfir Beauforthaf. Þar er komin bein tenging um stórbaug við fuglana sem yfirgáfu mið-Síberíu á NNA-stefnum. Leiðangurinn hafði viðdvöl á segulskautinu nyrðra, en þar var lítið um fugla.
Nýtt merki félagsins
Eins og lesendur hafa væntanlega tekið eftir hefur félagið nú tekið upp nýtt merki.
Gamla merkið var hannað og teiknað af Björgu Sveinsdóttur líffræðingi og myndlistarnema og birtist það fyrst á forsíðu fréttabréfsins í október 1985. Merki þetta hefur þó því miður þótt erfitt í vinnslu eftir að tölvutæknin tók alfarið við í vinnslu blaðsins. Kom stórnin sér því saman um að nýtt merki yrði hannað í tilefni 20 ára afmælis félagsins og tók Menja von Schmalensee, varaformaður Líffræðifélagsins og listakona, að sér að hanna það.
Í næsta fréttabréfi mun birtast skýring Menju á merkinu, en þangað til geta félagar velt vöngum yfir því.
Lagabreytingar
Á síðasta aðalfundi voru samþykktar fjórar lagabreytingartillögur. Til glöggvunar fyrir félaga eru gildandi lög félagsins birt hér í heild sinni.
Lög Líffræðifélags Íslands
1. Félagið heitir Líffræðifélag Íslands. Heimili þess og varnarþing eru í Reykjavík.
2. Tilgangur félagsins er að efla þekkingu á líffræði, að auðvelda samband og skoðanaskipti milli félaga sinna og að auðvelda tengsl þeirra við erlenda aðila með svipuð áhugamál.
3. Félagar geta orðið allir þeir sem áhuga hafa á líffræði og vilja stuðla að framgangi hennar.
4. Stjórn félagsins skipa formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og ritstjóri fréttabréfs. Skulu þeir kosnir á aðalfundi félagsins til eins árs í senn, hver í sínu lagi. Auk þess skulu líffræðinemar skipa einn fulltrúa í stjórn félagsins.
5. Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir apríl lok ár hvert og skal boðaður skriflega með tveggja vikna fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
a. Skýrsla stjórnar.
b. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
c. Lagabreytingar.
d. Kosning stjórnar og tveggja skoðunarmanna reikninga.
e. Inntaka nýrra félaga.
f. Ákvörðun félagsgjalda.
g. Önnur mál. Lögum félagsins má einungis breyta á aðalfundi og þarf til þess einfaldan meirihluta fundarmanna. Tillögur til lagabreytinga skulu fylgja fundarboði.
6. Aðalfundur ákveður árgjald til félagsins. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa einungis þeir sem greitt hafa árgjald. Þeir sem ekki hafa greitt árgjald til félagsins í tvö ár í röð falla sjálfkrafa út af félagaskrá og teljast þá ekki lengur félagar.
7. Allir félagsmenn hafa aðgang að félagaskrá í gegnum stjórn.
8. Beiðni um afhendingu félagaskrár þarf að hljóta samþykki stjórnar. Að því fengnu verða einungis afhentar persónuupplýsingar um þá félagsmenn sem það samþykkja hverju sinni.
9. Verði félaginu slitið skulu eignir þess renna til Vísindasjóðs og verði þeim varið til að styrkja líffræðirannsóknir.
Ábm. Ólafur Patrick Ólafsson