Fréttabréf 6. tbl. apríl 1999

20. árg. 6. tbl. apríl 1999.

Ár í lífi refsins
Páll Hersteinsson prófessor við Háskóla Íslands Refurinn (Alopex lagopus) er eina upprunalega landspendýrið á Íslandi. Þótt refaskyttur hafi búið yfir töluverðri þekkingu á lífsháttum þessa dýrs, hófust eiginlegar rannsóknir á refum ekki fyrr en undir lok 8. áratugar þessarar aldar. 
Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessar rannsóknir og farið víða yfir sviðið. Byggt verður á atferlisrannsóknum á Ströndum og í Hornstrandafriðlandi, fæðuvals- rannsóknum, krufningum til þess að meta líkamsástand, frjósemi og orkubúskap, merkingum til þess að meta far ungra dýra að heiman o.fl. Greint verður frá lífsháttum refsins eftir árstíðum og reynt að skýra hvernig atferli og líkamlegir eiginleikar gera honum kleift að lifa við þær aðstæður sem ríkja á Íslandi og annars staðar á norðurslóðum. Hver árstíð hefur sinn vanda sem refurinn þarf að glíma við og milljón ára aðlögun gerir honum það kleift.

Ljósmyndanámskeið

Þann 15. og 16. maí nk. mun Líffræðifélagið standa fyrir ljósmyndanámskeiði. Leiðbeinandi verður Guðmundur Ingólfsson ljósmyndari. Á námskeiðinu verður farið lítillega í grunnatriði ljósmyndunar og að því loknu munu þátttakendur fara út og taka 2 – 3 slidesfilmur á eigin myndavélar. Filmurnar verða framkallaðar, árangurinn skoðaður og hver þátttakandi fær leiðbeiningar um hvað má helst laga. Hámarskfjöldi þátttakenda er 15 manns.
Námskeiðið stendur frá kl. 9:00 – 15:00 laugardaginn 15. maí og 10:30 – 16:00 sunnudaginn 16. maí. Þátttakendur eiga að mæta á ljósmyndastofuna Ímynd, Hverfisgötu 18. Þátttakendur eru beðnir um að koma með myndavél og slidesfilmur. Guðmundur getur útvegað slidesfilmur á kostnaðarverði. Hann mun einnig sjá um framköllun á filmunum. Námskeiðsgjald er 2.000 kr. á mann. Áhugasömum er bent á að tilkynna þáttöku á netfang félagsins biologia@centrum.is eða beint til formanns (gudjon@hafro.is  vs: 552 – 0240, hs: 561- 3715).  Ath. að einungis 15 fyrstu komast að.

Aðalfundur Líffræðifélags Íslands

Við minnum á aðalfund félagsins þann 21. apríl nk. að Grensásvegi 12, stofu G6 kl. 20:00. Félagsmenn eru hvattir til að mæta og taka þannig þátt í störfum félagsins, hitta aðra félagsmenn og njóta með þeim veitinga að fundi loknum.

Ráðstefnufréttir

Með síðasta fréttabréfi fylgdi skráningareyðublað fyrir þá sem hafa hug á að senda inn efni á afmælisráðstefnu L.Í. í nóvember. Við hvetjum áhugasama til þess að senda eyðublöðin til Sigurðar S. Snorrasonar, Líffræðistofnun Háskólans, fyrir 15. maí nk.

Ábm. Ólafur Patrick Ólafsson