Fréttabréf 4. tbl. mars 1999

20. árg. 4. tbl. mars 1999

Þriðjudaginn 23. marz heldur Hrefna Sigurjónsdóttir fyrirlestur í Lögbergi, stofu 101, kl. 20:00:

Félagshegðun íslenska hestsins – Hrefna Sigurjónsdóttir.

Vorið 1997 hófst rannsókn á félagshegðun hesta á Skáney í Reykholtsdal.  Áhersla var lögð á að rannsaka samskipti hryssna. Í stóðinu voru margar hryssur , bæði    fylfullar og geldar, en líka tryppi og geldingar, alls 34 einstaklingar auk 9 folalda sem bættust við á tímabilinu.  Með rannsókninni er vonast til að bæta nokkuð úr þeim skorti sem hefur verið á rannsóknum á hegðun íslenska hestsins.  Hesturinn er í eðli sínu mikil félagsvera sem flýr undan hættu og leitar í hópinn sér til varnar.  Búast má við að  íslenska hestakynið sýni ýmis konar félagshegðun sem eru horfin úr öðrum kynjum vegna meiri ræktunar, minna frelsis og skorti á tækifærum að alast upp í félagskap margra annarra.  Áhugavert er því að bera hegðun íslenska hestsins saman við hegðun villtra hesta sem gengið hafa sjálfala í Bandaríkjunum í langan tíma þó ekki sé um sambærileg stóð að ræða því þar fá graðhestarnir að vera frjálsir og keppa um hryssurnar.

Hegðun hestanna í stóðinu var skráð með hjálp tölvu allan sólarhringinn frá 16. maí  þar til 18. júní og hluta hópsins lengur eða til 22. júní.  Hegðun hryssnanna var flokkuð og tímamæld og tíðni mismunandi samskipta milli nafngreindra einstaklinga stóðsins var skráð. Sérstök áhersla var lögð á að rannsaka hegðun sem flokkast undir íhlutun,  þ.e.a.s. þegar einn blandar sér í samskipti annarra eða ver einhvern fyrir ágangi.  Hestamenn hér á landi þekkja  slíka hegðun en henni hefur ekki verið lýst meðal annarra hestakynja.

Um mjög viðamikil gögn er að ræða og hefur margt mjög áhugavert komið í ljós.   Hestarnir höfðu mikil samskipti;  þeir kljáðust, léku sér, ógnuðu hverjir öðrum, slógust, sýndu ýmis konar kynhegðun og skiptu sér af öðrum sem voru að leika sér eða kljást og einnig vörðu sumir merar með ung folöld. 
Öll hrossin áttu sérstaka félaga eða vini en vinátta var metin út frá því hversu mikið og við hverja þau  kljást. Eins og hjá mönnunum er þó mjög misjafnt hversu vinamörg þau voru. Algengt var að sjá hrossin leika sér.  Þeir sem léku sér mest voru geldingar og veturgömul hesttryppi, síðan komu folöldin en merartryppin léku sér mjög lítið og fullorðnu merarnar svo að segja ekkert.

Reiknuð var út virðingaröð sem byggð var á bæði ógnunaratferli og merkjum um undirgefni.  Ekki var um fullkomna línulega röð að ræða en greinilegt hverjir voru ofarlega, um miðbikið og neðarlega.  Merarnar ríktu nær undantekningarlaust yfir geldingunum og tryppunum.  Jákvæð tengsl voru á milli stöðu í virðingaröð og aldurs og gæti það reyndar skýrt hvers vegna merarnar voru ofar en hinir. 
Mjög var það einstaklingsbundið hvort og hve mikið hrossin skiptu sér af samskiptum annarra og tiltölulega fá hross sýndu slíka íhlutun.  Örfáar hryssur vörðu merar með ungt folald en þrjár þeirra, ein 2ja vetra og tvær fylfullar merar, hegðuðu sér oft á þennan máta.  Merarnar skiptu sér svo að segja aldrei af öðrum sem voru að leika sér og sjaldan þegar þeir voru að kljást en geldingarnar og tryppin sáust oft trufla aðra. 
Fjögur ógelt veturgömul hesttryppi voru í stóðinu og sýndu þau merum í látum mikinn áhuga.  Það gerðu sumir geldingarnir einnig. Einkennilegra þótti okkur  að fimm fylfullar merar sýndu slíka hegðun og er áhugavert að velta fyrir sér hver ástæðan getur verið.  Þessi hegðun hjá íslenskum hryssum er þekkt en henni hefur ekki verið lýst meðal annarra hestakynja.

Að rannsókninni standa Hrefna Sigurjónsdóttir,  Kennaraháskóla Íslands, Anna Guðrún Þórhallsdóttir,   Búvísindadeild  Bændaskólans á Hvanneyri, Ingimar Sveinsson fyrrum kennari við Bændaskólann á Hvanneyri og Machteld van Dierendonck, sjálfstætt starfandi sérfræðingur frá Hollandi.  Vísindasjóður, Kennaraháskóli Íslands, Bændaskólinn á Hvanneyri og hjónin á Skáney styrktu rannsóknina.

Aðalfundur

Aðalfundur félagsins verður haldinn 21. apríl nk.  Skriflegar tillögur að lagabreytingum skulu hafa borizt í félaginu fyrir 1. apríl.  Núverandi stjórn gefur kost á sér áfram utan Kristínar Lóu Ólafsdóttur ritara. Félagsmenn eru hvattir til að gefa kost á sér!

Fréttir af afmælisráðstefnu

Annar fundur undirbúningsnefndar vegna afmælisráðstefnu félagsins var haldinn 12. marz sl.  Helztu fréttir eru að ákveðið var að þeir sem hafa hug á að flytja erindi eða vera með veggspjald á ráðstefnunni skuli tilkynna það fyrir 15. maí nk.  Þar til gert skráningareyðublað verður sent félagsmönnum fyrir lok marz.

Netfang félagsins

Ráðgert var að birta netfang félagsins í þessu tölublaði. Ekki tókst þó að ganga frá því í tæka tíð. Nánari fréttir af netvæðingu félagsins mun birtast í næsta tölublaði.

Ritstjóraspjall

Hinn indverzki yogi og guru Sai Baba (Sathyanarayana Ratnakaru Raju) og undraverðir hæfileikar hans hafa verið nokkuð til umfjöllunar í íslenzkum fjölmiðlum undanfarið.  Við heyrum aðdáendur hans staðhæfa að hann geti búið til “vibhuti” (heilaga ösku/olíu), gullhringi og jafnvel armbandsúr einfaldlega með því að rétta hönd sína út í loftið, að hann hafi reist fólk upp frá dauðum, svifið í lausu lofti og læknað alvarlegustu sjúkdóma, ásamt fleiri undrum.
Mest gremst mér þó, að borið hefur á þeirri staðhæfingu í umfjöllun þessari að vísindamenn hafi enga skýringu getað fundið á undraverðum hæfileikum Sai Baba.  Mun það vera rétt, svo langt sem það nær, en hitt er látið ósagt að Sai Baba hefur raunar aldrei leyft prófun á hæfileikum sínum við kontrólleraðar aðstæður.  Skoðun á kvikmyndum og myndbandsupptökum af undrum hans sýnir hins vegar að þar er um einföld töfrabrögð og sjónhverfingar að ræða, hin sömu og indverzkir götutöframenn hafa leikið um árabil, vegfarendum til skemmtunar.
Indverzki töframaðurinn B. Premanand er áhugamaður um almenna vísindafræðslu og -læsi og situr í stjórn Indian Skeptics.  Hefur hann leikið eftir öll undur Sai Baba og heldur fyrirlestra á Indlandi og víða um heim, þar sem hann sýnir þessi brögð og útskýrir hvernig indverzkir fakírar og “kraftaverkamenn” fara að því að blekkja áhorfendur sína.  Rétt er að taka fram að sú staðreynd að töframenn geti leikið yfirskilvitleg fyrirbæri eftir sannar hvorki né afsannar eitt né neitt um tilvist slíkra fyrirbæra, utan það að auðveldlega megi leika þau nákvæmlega eftir með blekkingum.  Áhorfendur með a.m.k. meðalgreind og -eftirtekt má m.ö.o. auðveldlega blekkja.  Vísindamenn eru þar engin undantekning og er það m.a. ástæðan fyrir því að töframaður er ávallt með í ráðum, þegar skoða skal staðhæfingar um yfirskilvitleg fyrirbæri.  Regla Occams ætti því að vera mönnum  efst í huga við slíkar aðstæður.
Fólk gerir sér almennt ekki grein fyrir að aldrei hefur tekizt að staðfesta eina einustu frásögn um yfirskilvitlegt fyrirbæri í þau u.þ.b. 130 ár sem þau hafa verið rannsökuð. Meira um það næst.

Erratum

*Félagsmenn hafa eflaust tekið eftir því að gíróseðill sá sem fylgja átti með síðasta blaði gerði það ekki. Ástæða þessa var sú að fyrir mistök voru gíróseðlarnir með gjalddaga 2019. Fylgir hann því hér með.

Ábm. Ólafur Patrick Ólafsson