Fréttabréf 5. tbl. apríl 1999

20. árg. 5. tbl. apríl 1999

Tillögur að lagabreytingum

Fyrir aðalfundi liggja fjórar tillögur til lagabreytinga.

1.  Stjórn leggur fram tillögu að breytingu á d lið 5. greinar, sem hljóðar nú svo:
Kosning stjórnar og tveggja endurskoðenda.
Tillaga stjórnar er að liður þessi hljóði:
Kosning stjórnar og tveggja skoðunarmanna reikninga.
Greinargerð:  Endurskoðandi er orðið lögverndað starfsheiti og má því enginn kalla sig endurskoðanda nema hafa til þess menntun og leyfi.  Á meðan félagið reiðir sig á sjálfboðaliða innan félagsins til að yfirfara reikninga þess, verður að breyta embættisheiti þessara ágætu sjálfboðaliða.

2.  Stjórn leggur fram tillögu um að núverandi 7. grein skuli framvegis auðkennd sem 9. grein.
Greinargerð:  Núverandi 7. grein er þess eðlis að bezt fer á því að hafa hana síðast.

3.  Stjórn leggur fram tillögu um aði 7. grein hljóði þess í stað svo:
Allir félagsmenn hafa aðgang að félagaskrá í gegnum stjórn.

4.  Stjórn leggur fram tillögu um að 8. grein hljóði svo:
Beiðni um afhendingu félagaskrár þarf að hljóta samþykki stjórnar.  Að því fengnu verða einungis afhentar persónuupplýsingar um þá félagsmenn sem það samþykkja hverju sinni.
Greinargerð um lagabreytingatillögur 3 og 4:  Síðustu mánuði hefir verið uppi nokkur umræða um meðhöndlun félagatals félagsins.  Þykir því ástæða til að setja klausu þar að lútandi í lög félagsins.  Er tilgangur þessa fyrst og fremst að vernda félaga, en einnig stjórn þess, þar eð hún hefði þannig lagalega ástæðu til að neita óviðkomandi um félagatalið.

Netfang – netfang

Til tíðinda bar á dögunum að Líffræðifélagið fékk sitt eigið netfang.  Ekki nóg með það, heldur er það líka komið með slóð fyrir væntanlega vefsíðu.  Fengin hefur verið manneskja sem ætlar að koma heimasíðunni upp, án þess að taka margföld mánaðarlaun meðallíffræðings fyrir. 
Heimasíðan kemur vonandi sem fyrst en á meðan geta félagar farið að senda stjórninni tölvupóst á netfangið biologia@centrum.is
Verið er að vinna að uppsetningu póstlista (listserv) fyrir félagið, svo hægt verði að miðla upplýsingum til félagsmanna með fljótlegum og skilvirkum hætti.  Af því tilefni biður félagið (því það hefur vitund – vissuð þið það ekki?) alla félaga sem netfang hafa að láta stjórninni það í té hafi þeir ekki þegar gert svo

Ritfregn

Nýlega kom út greinasafnið “Íslensk votlendi – verndun og nýting”.  Háskólaútgáfan gefur verkið út í samvinnu við Fuglaverndarfélag Íslands og Líffræðifélag Íslands.  Ritstjóri greinasafnsins er Jón S. Ólafsson.  Alls eru 25 greinar eftir 28 höfunda í greinasafninu sem er 283 blaðsíður, skipt í þrjá hluta:  “Yfirlit yfir íslensk votlendi”, “Rannsóknir á íslenskum votlendum” og “Verndun – nýting “.  Í fyrsta hlutanum eru greinar sem fjalla almennt um votlendi á Íslandi, vatnafræði votlendis, jarðveg í votlendi og einstaka flokka votlendra svæða, s.s. sjávarfitjar, vötn og jarðhitasvæði.  Annar hlutinn fjallar um niðurstöður nýlegra rannsókna á íslenzkum votlendum í 12 greinum, sem koma meðal annars inn á áhrif framræslu á gróðurfar og fuglalíf, tvær greinar fjalla um áhrif umhverfisbreytinga á flórgoða og greint er frá mikilvægi votlendis fyrir einstaka fuglategundir.  Í síðasta hlutanum, “Verndun – Nýting”, er fjallað um verndargildi votlendis, alþjóðlegar skuldbindingar vegna verndunar votlendis, ýmsa nýtingarmöguleika og endurheimt votlendis.   Texti greinanna er skrifaður með það fyrir augum að hann nýtist jafnt leikum sem lærðum.  Verð bókarinnar er kr. 1 980-.  Félagar í Líffræðifélagi Íslands geta fengið bókina með 20% afslætti (kr. 1 584-), þeir sem vilja nýta sér þennan aflátt skulu snúa sér til skrifstofu Fuglaverndarfélagsins að Hlemmi 3.  Þeir sem utan Reykjavíkur búa geta snúið sér beint til Háskólaútgáfunnar (s: 525 4003) og fengið bókina senda.  Takið fram að þið séu félagar í Líffræðifélaginu.

Hér fylgir með efnisyfirlit bókarinnar.

ÍSLENSK VOTLENDI
VERNDUN OG NÝTING
Inngangur Jón S. Ólafsson og Kristinn Haukur Skarphéðinsson

YFIRLIT YFIR ÍSLENSK VOTLENDI
Íslensk votlendi Arnþór Garðarsson
Ár og vötn á Íslandi: Vistfræði og votlendistengsl Hilmar Malmquist
Sjávarfitjar Agnar Ingólfsson
Vatnafræði votlendis Freysteinn Sigurðsson
Flokkun og jarðvegseiginleikar mýra Grétar Guðbergsson og Þorleifur Einarsson
Jarðhitasvæði Helgi Torfason

RANNSÓKNIR Á ÍSLENSKUM VOTLENDUM
Gróður í framræstum mýrum Borgþór Magnússon
Framræsla votlendis á Vesturlandi Hlynur Óskarsson
Röskun votlendis á Suðurlandi Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Jóhann Þórsson, Svafa Sigurðardóttir, Kristín Svavarsdóttir og Magnús H. Jóhannsson
Votlendi sem kvik (dýnamísk) samfélög Rannveig Thoroddsen
Sinubruni og smáliðdýr í jarðvegi í mýri Árni Davíðsson
Þýðing votlendis fyrir fugla Guðmundur A. Guðmundsson
Áhrif framræslu á votlendisfugla Einar Þorleifsson
Fuglalíf og votlendi við Ölfusárós Jóhann Óli Hilmarsson
Keldusvínið – fórnarlamb framræslu og minks Kristinn Haukur Skarphéðinsson
Hrun flóragoðastofnsins á Íslandi Ólafur K. Nielsen
Dreifing flórgoða á Mývatni í ljósi kísilgúrvinnslu Árni Einarsson
Rannsóknir á Framengjum í Mývatnssveit byggðar á landfræðilegu 
upplýsingakerfi Marcus Casper

VERNDUN – NÝTING
Vernd votlendis Arnþór Garðarsson
Alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga gagnvart verndun votlendis Jón Gunnar Ottósson
Ramsar á Íslandi Gísli Már Gíslason
Skógrækt og votlendi Árni Bragason
Votlendi í virkjunarlónum Hákon Aðalsteinsson
Framræsla mýrlendis Óttar Geirsson
Endurheimt votlendis Þóra Ellen Þórhallsdóttir

Lærið að þekkja plönturnar

Fyrirhugað er að halda fjögurra daga námskeið í plöntugreiningum á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands næstkomandi sumar ef næg þátttaka verður.  Námskeiðið verður haldið dagana 8. til 11. júlí að Hrafnagili í Eyjafirði í samvinnu við Hótel Vin.  Gisting og fæði á staðnum fyrir þá sem þess óska.
Námskeiðið fer að langmestu leyti fram úti í náttúrunni á gönguferðum um nágrennið, einnig með morgunfyrirlestrum og verklegum leiðbeiningum að dagsferð lokinni.  Námskeiðið hefst um hádegi þess 8., en lýkur með dagsferð þann 11. júlí.  Leiðbeinandi verður Hörður Kristinsson.  Miðað er við 12 – 15 þátttakendur.  Verði þeir fleiri mun þurfa fleiri leiðbeinendur.
Verð á námskeiðinu verður sem hér segir:
1. tilboð:  Kr. 22 500-, innifalin gisting í uppábúnu rúmi miðað við tvo í herbergi ásamt fæði, námskeiðsgjaldi og rútuferð.
2. tilboð:  Kr. 19 800-, innifalin gisting í svefnpokaplássi í skólastofu, ásamt fæði, námskeiðsgjaldi og rútuferð.
3. tilboð:  Kr. 12 000-, námskeiðsgjald og rútuferð án gistingar og fæðis.

Tilboð 3 er miðað við þá sem hugsanlega búa í grennd við staðinn, eða kjósa að gista á tjaldstæði og sjá sér sjálfir fyrir fæði.
Sundlaug og tjaldstæði er á staðnum.  Tilkynna þarf þátttöku sem fyrst, í síðasta lagi í lok apríl, einkum fyrir þá sem ætla að fá gistingu á staðnum.  Nánari upplýsingar gefa Hörður Kristinsson og Sóley Jónasdóttir í síma 462 2983, þátttöku ber að tilkynna á sama stað.  Netfang:  hkris@ni.is

Ráðstefnufréttir

Með þessu fréttabréfi fylgir eyðublað þar sem þeir sem hug hafa á því að senda inn efni á afmæliráðstefnu L.Í. í nóvember geta skráð sig til leiks.  Frestur til að skila þessum eyðublöðum er til 15. maí.
Eins og fram hefur komið er yfirskrift ráðstefnunar “Líffræðirannsóknir á Íslandi” og vonumst við eftir framlögum frá sem flestum líffræðingum og líffræðinemum.  Í því markmiði að ná til sem flestra höfum við fengið tengla í lið með okkur á öllum stærri vinnustöðum líffræðinga.  Þeir ætla að hvetja samstarfsfólk sitt til þátttöku, dreifa og taka við þátttökutilkynningum og veita upplýsingar.

Eftirtaldir hafa þegar tekið að sér að vera tenglar fyrir við undirbúningsnefndina:
Blóðbankinn – Kristbjörn Orri Guðmundsson
Hafrannsóknastofnun – Guðjón Ingi Eggertsson
Háskólinn á Akureyri/Hafró – Hreiðar Þór Valtýsson
Heilbrigðiseftirlit Rvk. – Kristín Lóa Ólafsdóttir
Hollustuvernd – Franklín Georgsson
Hólar – Skúli Skúlason
Iðntæknistofnun – Jakob Kristjánsson
Íslensk erfðagreining – Kristinn P. Magnússon
Keldur – Sigurbjörg Þorsteinsdóttir
Krabbameinsfélagið – Steinunn Thorlacius
Landgræðslan – Ása L. Aradóttir
Líffræðinemar – Hafdís Hanna Ægisdóttir
MS nemar – Skor/Menja/Róbert
Líffræðistofnun  – Menja/Guðmundur/Sigurður Snorra
Lsp-Litningar/glasafrjvg – Ingileif Jónsdóttir
Lsp-ónæmisfræði – Ingileif Jónsdóttir
Lsp-frumulíffræði – Ingileif Jónsdóttir
Læknadeild – lífefnafr. – Eiríkur Steingrímsson
Náttúrufræðistofnun – Kristinn Haukur Skarphéðinsson
RALA – Hlynur Óskarsson
Rannsóknasetrið í Vestmannaeyjum – Páll Marvin Jónsson
Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins – Guðjón Ingi Eggertsson
Rannóknastofa. í veirufræði – Sigríður Elefsen
Samtök Líffræðikennara – Jóhann Guðjónsson
Veiðimálastofnun – Guðni Guðbergsson
Þar sem engir tenglar eru ættu líffræðingar að snúa sér beint til undirbúningsnefndarinnar með spurningar og athugasemdir.
Undirbúningsnefnd ráðstefnunnar skipa:

Sigurður S. Snorrason formaður, Líffræðistofnun, s:525-4612, sigsnor@rhi.hi.is
Ása L. Aradóttir, Landgræðslunni, s:553-9711, asa.landgr@isholf.is
Guðmundur Eggertsson, Líffræðiskor, s:525-4603, gudmegg@rhi.hi.is
Kristinn H. Skarphéðinsson, Náttúrufræðistofnun, s:562-9822, kristinn@ni.is
Kristinn P. Magnússon, Íslenskri erfðagreiningu, s:570-1952, kristinn@decode.is
Menja von Schmalensee, Líffræðifélaginu, s:525-4279, menja@rhi.hi.is
Róbert Arnar Stefánsson, Líffræðifélaginu, s:525-4279, ras@rhi.hi.is
Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, Keldum, s:567-4700, sibbath@rhi.hi.is

Skelfileg mistök!!!

Ekki linnir vandræðunum með gíróseðlana.  Ekki eru öll kurl enn komin til grafar í því máli og virðist sem eitthvað af gíróseðlunum hafi hreinlega vantað.  Stjórnin er nú að yfirfara þetta mál og mega þeir sem væntu gíróseðils í marz, en fengu eigi, búast við honum í haust.

Íþróttir

Nú fer að líða að vori og sumri með blóm í haga (og sæta langa sumardaga, eins og þar segir).  Af því tilefni þykir ritstjóra fréttabréfs félagsins tími til kominn að stofnaður verði krikketklúbbur á Íslandi.  Í fjölmiðlum heyrist að aukin harka sé í íþróttum hérlendis.  Hvað er þá betra en að bregða sér í krikket, þar sem reglur kveða á um séntilmannlega hegðun, óaðfinnanlegan hvítan klæðnað og tepásur?  (Hættið þessum hlátri strax!).  Að öllu gamni slepptu er krikket mjög skemmtileg íþrótt. Verst er að þá þarf að slá blómin í haga, svo pláss sé til a spila á …

Nýtt árþúsund?

Stjórn félagsins er þeirrar skoðunar að þeir sem finna sig knúna til að deila um hvort nýtt árþúsund hefjist 1.janúar árið 2000 eða 2001, hafi of mikinn frítíma og þurfi alvarlega að huga að því að finna sér önnur áhugamál.

Fleyg tilvitnun

“When you think about something at 3 o´clock in the morning and then again at noon the next day, you get different answers…”
Snoopy

Næsti fyrirlestur

Margir muna eflaust eftir skemmtilegu og velheppnuðu myndakvöldi Esterar Rutar Unnsteinsdóttur, Hólmfríðar Sigþórsdóttur og Páls Hersteinssonar í óktóber síðastliðnum þar sem þau sýndu myndir frá refarannsóknum í Hlöðuvík sumarið 1998.  Þriðjudaginn 20. apríl mun Páll Hersteinsson greina hluta af niðurstöðum þessara rannsókna.  Fyrirlesturinn verður í Lögbergi, stofu 101, og hefst kl. 20:00.

Ritstjóraspjall (part deux)

Síðast var fráþví sagt að fólk gerði sér almennt ekki grein fyrir að aldrei hefur tekizt að staðfesta eina einustu frásögn um yfirskilvitleg fyrirbæri, hvað þá sýna fram á tilvist slíkra fyrirbæra, þrátt fyrir áratuga langa sögu dularsálfræðilegra rannsókna.  Eftir gaumgæfilega yfirferð á beztu rannsóknargögnum sem völ er á um slíkt, komst Rannsóknarráð Bandaríkjanna (NRC) árið 1988 að eftirfarandi niðurstöðu.  Rétt þykir að birta frumtextann, hvort sem fleiri eða færri (líklega þó hið fyrrnefnda) skilja hann:
…despite a 130-year record of scientific research on parapsychology, our committee could find no scientific justification for the existence of phenomena such as extra-sensory perception, mental telepathy, or “mind over matter” exercises.
Það þýðir m.a. að hugsanaflutningur er ekki viðurkennd staðreynd, þrátt fyrir að reglulegar fullyrðingar um slíkt í fjölmiðlum.  Sönnunarbyrðin hvílir á formælendum yfirskilvitlegra fyrirbæra. Það er þeirra að sýna fram á tilvist umræddra fyrirbæra, án þess að fara fram á undantekningar á vísindalegri aðferðafræði, en þeir staðhæfa oft að fræði þeirra sé ekki hægt að stunda skv. Reglum þeim og aðferðum sem eðlilegar þykja í öðrum vísindagreinum (en til þeirra vilja þeir þó telja fræði sín).  Hafa þeir komið sér upp eigin tæknimáli til að tjá einstæða hæfileika sína, en hafa fengið mikið af því að láni úr raunvísindum og hafa þannig smám saman fengið á sig yfirbragð þeirra.  Rökhugsun og almenn skynsemi eru þó tæki sem virðast þeim oft framandi, þar sem jafnvel fljótleg skoðun leiðir oft í ljós að ólíklegt sé að staðhæfingar þeirra standizt.  Mest sláandi af öllu er að margir formælendur yfirskilvitlegra fyrirbæra halda því fram að einungis þeir sem aðhyllast slíkt, án nokkurrar forskoðunar, og hafi engar efasemdir um sannleik þeirra, séu færir um að stunda rannsóknir á þeim.  Sannleikurinn er ekki vís með að koma í ljós við slíkar aðstæður.
Regla Occams (Occam´s Razor):  Kennd við heimspekinginn og Guðfræðinginn William of Occam (eða Ockham), sem sagði að “Entia non sunt multiplicanda praeter necessitatem”.  (Hluti skal ekki margfalda umfram það sem nauðsynlegt er).  Þetta þýðir að, að öllu öðru jöfnu, sé einfaldasta skýringin líklegust til að vera sú rétta.

Ábm. Ólafur Patrick Ólafsson