Fréttabréf 7. tbl. september 1999

20. árg. 7. tbl. september 1999

MYNDAKVÖLD

Miðvikudaginn 6. október mun Líffræðifélag Íslands standa fyrir myndakvöldi. Þar mun Oddur Sigurðsson sýna myndir af skordýrum og veita örlitla innsýn í heim þeirra.
Myndakvöldið verður haldið í Lögbergi, stofu 101 og hefst kl. 20:00.
Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Skordýr

Oddur Sigurðsson

Myndirnar sem ég ætla að sýna eru allar teknar á Íslandi á síðustu 10 árum. Þar er fyrst og fremst um skordýr og önnur smádýr að ræða, en einnig myndir úr jurtaríkinu. Myndavélin sem ég nota er með 6 X 4.5 cm formati og fást þannig myndir sem henta betur til stækkunar en 35 mm myndir.
Ég fór að taka ljósmyndir 1967 og hefur það aukist stig af stigi síðan. Hef sérstaklega tekið myndir af landslagi og jarðfræðifyrirbrigðum úr lofti og þá jafnan þrívíddarmyndir. Fór að leggja mig eftir skordýraljósmyndum 1988 og hefur áhuginn síst minnkað með árunum. Það hendir varla að ég fari út til að taka myndir og sjái ekki eitthvað nýtt sem kemur skemmtilega á óvart. Þetta er heimur sem er nýstárlegur og næsta framandi fyrir flest venjulegt fólk.

Ráðstefnufréttir

Eins og félögum er væntanlega kunnugt, stendur félagið fyrir stærstu ráðstefnu sinni til þessa, dagana 18.-20. nóvember á Hótel Loftleiðum, í tilefni af 20 ára afmæli félagsins á þessu ári. Ráðstefnan ber yfirskriftina “Líffræðirannsóknir á Íslandi” og verður líklega stærsta íslenska ráðstefnan á sviði rannsókna sem haldin hefur verið en rúmlega 250 tilkynningar um framlög bárust.
Eins og heiti ráðstefnunnar ber með sér er um viðamikið efni að ræða. Fyrirlestrar verða frá morgni til kvölds í tveim sölum samtímis en auk þess verða veggspjöld sýnd alla dagana í þriðja salnum.
Þátttökugjald er kr. 2 000 en kr. 500 fyrir nema. Þátttöku á ráðstefnuna má tilkynna á netfangið arliff@hi.is eða til Líffræðistofnunar Háskólans, b/t Sigurðar S. Snorrasonar, Grensásvegi 11, 108 Reykjavík.
Dagskrá ráðstefnunnar verður birt á heimasíðu Líffræðifélagsins http://www.centrum.is/biologia/

“Líffræðirannsóknir á Íslandi” er kjörið tækifæri fyrir alla áhugamenn um líffræði að kynnast þeim gróskumiklu líffræðirannsóknum sem fram fara á Íslandi um þessar mundir.

Nemendastyrkur

Í tilefni 20 ára afmælis Líffræðifélags Íslands hefur verið ákveðið að félagið styrki einn nema í framhaldsámi til ráðstefnuferðar. Ráðgert er að veita styrkinn við hátíðlega athöfn á afmælisráðstefnu félagsins í nóvember. Ef vel tekst til er ætlunin að styrkur þessi verði veittur árlega, eftir efni og aðstæðum félagsins hverju sinni.

Reglur um nemendastyrk Líffræðifélags Íslands

– Styrkurinn er kr. 40 000- og er úthlutað til að standa straum af kostnaði vegna ráðstefnuferðar á tímabilinu 01.09.1999 – 31.08.2000.

– Allir framhaldsnemar í líffræði eða líffræðitengdu námi, sem eru að vinna að sjálfstæðu rannsóknarverkefni og eru félagar í Líffræðifélagi Íslands, geta sótt um.

– Skilyrði fyrir úthlutun styrksins er að nemandinn kynni verkefni sitt á viðkomandi ráðstefnu á formi fyrirlesturs eða veggspjalds.

Umsóknir skulu innihalda eftirfarandi

1) Vísindagrein um efnið sem kynna á á ráðstefnunni. Lengd hennar skal vera mest 6 A4 blaðsíður (þ.m.t. myndir og heimildaskrá), með minnst 11 punkta letri, línubili 1.5 og 2.5 cm spássíum á alla kanta. Greinin skal fylgja hefðbundinni uppbyggingu með inngangi, efni & aðferðum, niðurstöðum, umræðu og heimildaskrá.

2) Ferilsskrá (curriculum vitae) umsækjanda.

3) Meðmæli um gagnsemi ferðarinnar frá aðalleiðbeinanda.

4) Fjárhagsáætlun verkefnisins undirrituð af leiðbeinanda.

5) Upplýsingar um ráðstefnuna sem sótt er um ferðastyrkinn til (ráðstefnubæklingur eða annað sambærilegt).

– Greinar fara til sérfræðinga á viðkomandi sviði. Skila þeir umsögn um efnistök greinarinnar til dómnefndar, sem samanstendur af þriggja manna (ólaunaðri) nefnd sem tekur endanlega ákvörðun um úthlutun styrksins hverju sinni.

– Umsóknir skulu vera skriflegar og berast pósthólfi félagsins (Pósthólf 5019, 125 Reykjavík) eigi síðar en 25. október 1999.

Enn um rukkun félagsgjalda

Eins og frá var sagt á sínum tíma og frægt er orðið urðu mistök við prentun og útsendingu gíróseðla fyrir árgjaldið 1998 sem rukkað var í vor.
Fullháar kröfur voru gerðar á suma, meðan aðrir sluppu mjög ódýrt. Til stóð að leiðrétta þessi mál nú í haust en í ljós hefur komið að bezt fer á því að gera það næsta vor þegar rukkuð verða félagsgjöld fyrir 1999. Vegna þessara mistaka verður enginn felldur út af félagsskránni í ár (yahoo!) og geta því allir hlakkað til að fá að fylgjast með störfum félagsins í vetur.

Póstlisti

Settur hefur verið upp póstlisti fyrir Líffræðifélagið. Ætlunin er að hann flytji félagsmönnum tilkynningar hvers konar frá félaginu á fljótan og skilvirkan hátt. Verið er að ganga frá endanlegu sniði listans, en að því loknu verður send kynning á listanum til þeirra félagsmanna hvers netföng eru félaginu kunn. Kynningu þessari munu fylgja ofureinfaldar leiðbeiningar um hvernig megi skrá sig af listanum, lítizt fólki illa á hann.

Póstlistinn verður s.k. “lokaður” listi, þ.a. stjórn félagsins mun hafa milligöngu um allt efni sem sent er út. Þetta er gert svo að óvandaðir aðilar úti í bæ geti ekki hellt ruslpósti yfir félagsmenn, komizt þeir á snoðir um listann. Félagsmenn eru hvattir til að láta þetta á engan hátt aftra sér í að senda inn (biologia@centrum.is) tilkynningar, fréttir eða annað sem það telur að erindi eigi við félaga (þó ekki slúðursögur, þótt það væri óneitanlega gaman).

Þeir félagar (og aðrir) hvers netföng eru ekki skráð hjá félaginu verða að bíða næsta fréttabréfs, en þar verða birtar upplýsingar um hvernig megi skrá sig á póstlistann og af honum. Þetta er eins nálægt ritstjóraspjalli og þið komist í þetta skipti vegna plássleysis (aftur?). Lesendur hafa vafalaust átt von á djúpri heimspekilegri vizku (að ekki sé minnzt á innsæi) eftir sumarlanga bið, en það verður að bíða.

Ábm. Ólafur Patrick Ólafsson