Fréttabréf 3.tbl. febrúar 1999

20.árg 3.tbl. febrúar 1999
Príonsjúkdómar í mönnum og dýrum – áhrif arfgerða príongensins.

Stefanía Þorgeirsdóttir – Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Riða í sauðfé er einn af svokölluðum príonsjúkdómum, en aðrir þekktir príonsjúkdómar eru Creutzfeldt-Jakob og Kuru í mönnum, og kúariða (BSE) í nautgripum. Þessir sjúkdómar eru ólæknandi en einkennandi fyrir þá eru skemmdir á taugakerfi, sem verða vegna uppsöfnunar á smitefninu í heila sjúklinganna. Orsakavaldurinn er nú talinn vera smitandi prótein, en ekki veira eða baktería, því ekkert erfðaefni hefur fundist í smitefninu. Ákveðið gen sem finnst í erfðamengi allra spendýra, svokallað príongen, ber forskrift þess próteins sem á umbreyttu formi er talið valda sjúkdómnum. Þegar einstaklingur verður fyrir smiti, kemur hið umbreytta prótein af stað keðjuverkun þannig að príonprótein þess sem sýkist komast einnig á umbreytt og sýkjandi form og svo koll af kolli. 
Í príongenum bæði manna og nokkurra dýrategunda hefur fundist basabreytileiki og stökkbreytingar sem skipta máli fyrir príonsjúkdóma. Í mönnum til dæmis ræður breytileiki í tákna 129 í príongeninu næmi fyrir Creutzfeldt-Jakob sjúkdómnum, bæði stökum tilfellum og vegna smits. Í sauðfé hins vegar eru það aðallega amínósýrur nr. 136, 154 og 171 í príonpróteininu sem virðast skipta máli fyrir smitnæmi. Undanfarin ár hafa farið fram á Keldum, rannsóknir á breytileika príongensins í íslensku sauðfé og hugsanleg áhrif hans á næmi þess fyrir riðu. Vissar arfgerðir af príongeninu eru algengari í sauðfé sem veikst hefur af riðu en í heilbrigðu fé. Niðurstöðurnar benda því til að hægt sé að kynbæta fé til að minnka líkurnar á að það veikist af riðu. 
Í erindinu verður leitast við að gefa yfirlit yfir helstu príonsjúkdómana sem eru þekktir í mönnum og dýrum og sagt frá niðurstöðum rannsókna, bæði erlendis og hér á landi, á því hvernig breytileiki í príongeninu getur skipt máli fyrir smitnæmi og sjúkdómsmynd.

Rukkun félagsgjalda

Með þessu fréttabréfi fylgir gíróseðill fyrir árgjaldi félagsins árið 1998.  Á aðalfundi 1998 var samþykkt að árgjald yrði 900 kr.  Gjaldkeri biður alla að bregðast vel við og greiða gjaldið hið fyrsta.  Fyrirséð er að þetta ár verði félaginu kostnaðarsamt.  Meðal útgjaldaliða má nefna netvæðingu félagsins, kostnað við fyrirlestra og síðast en alls ekki sízt, afmælisráðstefnu og fagnað í nóvember.
Glatt er skuldlaust hjarta, gjaldkeri?

Ritstjóraspjall

Nú á ég eftir að fá það óþvegið, en samt sem áður …
Þau ummæli stjórnvalda að Íslendingar séu sjálfum sér samkvæmir með því að undirrita ekki Kyoto sáttmálann er vafalaust rétt – bara ekki á þann hátt sem þau halda.  Íslenzk stjórnvöld eru sjálfum sér samkvæm, þar sem þau hafa á undanförnum árum ítrekað sýnt umhverfinu og umhverfisvernd mikið virðingaleysi (að fela sama ráðherra umsjón landbúnaðar- og umhverfismála var strax ills viti).  Ítrekað er horft til stundargróða í stað langtímahagsmuna og höfðað til “sérstöðu Íslands” – þeirrar gamalreyndu afsökunar.  Ekki er hins vegar lengur unnt að taka tillit til “sérstöðu” þegar hætta er á vistfræðislysi á heimsvísu.  Umhverfismál teljast ekki lengur einkamál einstakra ríkja. 
Mörg s.k. þróunarríki eru ósátt við að þurfa að takmörka losun gróðurhúsalofttegunda og finnst að hér sé um að ræða efnahagslega nýlendustefnu iðnríkjanna.  Er von á góðu sjái þau eitt ríku landanna neita að staðfesta Kyoto sáttmálann vegna þess að það telur það gagnstætt hagsmunum sínum?  Ef allir höguðu sér þannig, er hætt við að Kyoto sáttmálinn yrði lítið nema gagnslítill og útvatnaður málamiðlunarpappír.  Vel má vera að sú verði niðurstaðan engu að síður, en það væri efni í aðra grein.  Bent er á að þótt Ísland sé yfir CO2 losunarmörkum miðað við höfðatölu, sé heildarlosunin minni en t.d. Bandaríkjanna.  M.t.t. íbúatölu landanna tveggja er sú staðreynd tvímælalaust fagnaðarefni, en eiga þetta vera alvöru rök fyrir umræddri ákvörðun?  Bent er á að aukið atvinnuleysi, launalækkun og skerðing lífskjara fylgdu í kjölfarið, staðfestu Íslendingar samkomulagið.  Ég býst þá við að þetta verði ekki vandamál gangi spár um loftslagsbreytingar eftir. 
Þarf frekari vitnanna við, en stjóenvaldsákvarðanir sem þessar, efist fólk um hættu þá sem stafar af almennu vísindaólæsi í þjóðfélaginu? (Já, stjórnmálamenn eru upp til hópa vísindaólæsir – skelfileg tilhugsun í nútíma þjóðfélagi, ekki satt?).  Eru nú tilfinningaleg rök að bera mig ofurliði?  Ef til vill, en er það nokkur furða?  Óábyrgar, illa ígrundaðar og pólitískar ákvarðanir sem þessar gera mér gramt í vægast sagt gramt í geði – og þar við situr.  (Hrmph!).
Því fyrr sem þjóðir heims fela heimsambandsstjórn meðferð sameiginlegra hagsmuna, s.s. umhverfismála, því betra – en það væri efni í þriðju greinina*.

Ólafur Patrick (opo@rhi.hi.is)

*  Áhugasamir geta skoðað heimasíður World Federalist Movement
(http://www.worldfederalist.org/) og World Federalist Association
(http://www.wfa.org/).

Afmælisráðstefna Líffræðifélagsins

Í desember næstkomandi verður Líffræðifélag Íslands 20 ára.  Stjórn félagsins hefur ákveðið að halda upp á afmælið með viðeigandi hætti og boðar til afmælisráðstefnu í haust.  Ætlunin er að horfa vítt og breytt yfir líffræðina og við vonum að allir geirar og afkimar líffræðinnar eigi sína fulltrúa á þessari ráðstefnu.  Hún ber því yfirskriftina “Líffræðirannsóknir á Íslandi”.  Þar sem þetta verður væntanlega viðamesta ráðstefna félagsins, enn sem komið er, höfum við fengið Líffræðiskor og Líffræðistofnun H.Í. til að standa að ráðstefunni með okkur.  Ráðstefnan verður haldinn föstudaginn 19. og laugardaginn 20. nóvember að Hótel Loftleiðum.  Undirbúningsnefnd hefur verið mönnuð og hana skipa:
Ása L. Aradóttir, Guðmundur Eggertsson, Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Kristinn P. Magnússon, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, Sigurður Snorrason og Menja von Schmalensee/Róbert A. Stefánsson.
Nefndin hefur þegar hafið störf, farin að leggja línurnar og hefur ákveðið eftirfarandi:
Ráðstefnan verður öllum opin.
Á ráðstefnunni verður boðið upp á fyrirlestra og veggspjaldakynningar.
Þeir er hyggjast kynna efni þurfa að skila inn þátttökutilkynningu í síðasta lagi 15. maí. Á henni skal koma fram hvort kynna á efni með erindi eða veggspjaldi og heiti efnis.  Síðar í vetur mun þátttökueyðublað fylgja fréttabréfi félagsins.  Undirbúningsnefndin áskilur sér rétt til að breyta fyrirlestri í veggspjald, og öfugt, ef ástæða þykir til eða nauðsyn krefur. 
Ráðstefnugjöld verða 1000 kr., 500 kr. fyrir stúdenta.
Allar upplýsingar munu að sjálfsögðu verða birtar í fréttabréfinu um leið og þær liggja fyrir.  Vonir standa til að netvæðingu félagsins verði lokið í apríl og verður þá að sjálfsögðu hægt að sækja allar upplýsingar og skrá þátttöku á heimasíðu félagsins.

Ljósmyndanámskeið

Nú eru nokkur ár síðan félagið stóð fyrir ljósmyndanámskeiði.  Því fannst stjórninni tilvalið að leita á ný til Guðmundar Ingólfssonar hjá Ljósmyndastofunni Ímynd.  Hann tók vel í að hafa námskeið fyrir félaga og verður það líklega í maí.  Nánari upplýsingar birtast í fréttabréfinu síðar.

Næsti fyrirlestur

Næsti fyrirlestur verður þriðjudaginn 23. marz.  Þá mun Hrefna Sigurjónsdóttir, dósent við K.H.Í. flytja fyrirlestur sem hún nefnir:
“Félagsatferli íslenska hestsins”  Fyrirlesturinn verður haldinn í Lögbergi, stofu 101 og hefst kl. 20:00.

Ábm: ÓPÓ