Fréttabréf 2.tbl. febrúar 1999

20.árg 2.tbl. febrúar 1999

Lífræn ræktun – búskapur í sátt við umhverfið

Þróun landbúnaðar á 20. öldinni, þó einkum á seinni hluta hennar, hefur auk tæknivæðingar byggst mjög á efna- og lyfjavæðingu framleiðslunnar í þeim tilgangi að hún sé sem mest og notendur fái matvæli á sem lægstu verði.  Í mörgum tilvikum hafa umhverfis- og búfjárverndarsjónarmið, og jafnvel hollustusjónarmið, verið sniðgengin og sveitabyggð hefur stöðugt dregist saman.  Lengst nær sú þróun í svokölluðum verksmiðjubúskap.  Vankantar þessara breytinga eru að verða æ ljósari víða um heim og er verið að leita nýrra leiða í sátt við umhverfið.  Hefur athyglin m.a. beinst að lífrænni ræktun og þeim búskap sem henni tengist, einkum undanfarin 20-30 ár.  Sú vakning gerði þó lítið vart við sig hér á landi fyrr en á þessum áratug.  Í erindinu verður greint frá nokkrum undirstöðuatriðum lífrænnar ræktunar með tilvísun í frumkvöðla á borð við Rudolf Steiner í Austurríki, Eve Balfour í Bretlandi og Sesselju Sigmundsdóttur á Sólheimum í Grímsnesi.  Þá verður vikið að skilyrðum til lífræns búskapar hérlendis, alþjóðlegum og innlendum reglum um lífræna framleiðslu, eftirliti og vottun, faglegu og félagslegu starfi til eflingar lífrænum búskap og markaðsmálum, þar sem saman fara sjónarmið bænda og neytenda í anda sjálfbærrar þróunar.  Þætti lífræns búskapar í alhliða umhverfisvernd og vistmenningu (permaculture) verða gerð nokkur skil frá sjónarhóli grænnar hugmyndafræði og varpað fram hugmyndum í ljósi íslensks raunveruleika.  Því ætti efni erindisins að höfða til margra líffræðinga og einnig til ýmissa utan raða þeirra.

Félagsgjöld

Gjaldkeri vill nota tækifærið til að minna félagsmenn á að greiða félagsgjöldin.  Allmargir eiga enn eftir að greiða gíróseðla sem sendir voru út í marz á síðasta ári.  Það er ekkert gamanmál að falla út af félagaskrá vegna skulda!

Lög Líffræðifélags Íslands

Aðalfundur Líffræðifélagsins verður haldinn í apríl.  Lögin eru birt hér til kynningar fyrir félaga.  Skriflegar lagabreytingartillögur ásamt greinargerð skulu berast félaginu fyrir 1. apríl næstkomandi.

1. Félagið heitir Líffræðifélag Íslands.  Heimili þess og varnarþing eru í Reykjavík.

2. Tilgangur félagsins er að efla þekkingu á líffræði, að auðvelda samband og skoðanaskipti milli félaga sinna og að auðvelda tengsl þeirra við erlenda aðila með svipuð áhugamál.

3. Félagar geta orðið allir þeir sem áhuga hafa á líffræði og vilja stuðla að framgangi hennar.

4. Stjórn félagsins skipa formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og ritstjóri fréttabréfs.  Skulu þeir kosnir á aðalfundi félagsins til eins árs í senn, hver í sínu lagi.  Auk þess skulu líffræðinemar skipa einn fulltrúa í stjórn félagsins.

5. Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir apríl lok ár hvert og skal boðaður skriflega með tveggja vikna fyrirvara.  Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.  Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir: 
a. Skýrsla stjórnar.
b. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
c. Lagabreytingar.
d. Kosning stjórnar og tveggja endurskoðenda.
e. Inntaka nýrra félaga.
f. Ákvörðun félagsgjalda.
g. Önnur mál.
Lögum félagsins má einungis breyta á aðalfundi og þarf til þess einfaldan meirihluta fundarmanna.  Tillögur til lagabreytinga skulu fylgja fundarboði.

6. Aðalfundur ákveður árgjald til félagsins.  Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa einungis þeir sem greitt hafa árgjald.  Þeir sem ekki hafa greitt árgjald til félagsins í tvö ár í röð falla sjálfkrafa út af félagaskrá og teljast þá ekki lengur félagar.

7. Verði félaginu slitið skulu eignir þess renna til Vísindasjóðs og verði þeim varið til að styrkja líffræðirannsóknir.

Viltu starfa fyrir félagið?

Eins og fram kemur hér að framan er stjórn félagsins kosin á aðalfundi og til eins árs í senn.  Öllum félagsmönnum er frjálst að gefa kost á sér til starfa fyrir félagið.  Því er rétt fyrir félaga að leiða hugann að því hvort þeir hafa áhuga á að gefa sig fram til starfa.  Ef fleiri en einn gefa kost á sér í tiltekið embætti, verður kosið á milli þeirra.  Ef engin framboð berast í lausar stöður áskilur stjórnin sér rétt til að leita eftir því við einstaklinga að þeir gefi kost á sér.

Frá formanni

Ég hef fregnað að sú ákvörðun mín að afhenda Össuri Skarphéðinssyni, félagaskrána, að hans beiðni, hafi valdið óánægju meðal a.m.k. nokkura félagsmanna.  Mér var það ljóst að Össur hugðist senda líffræðingum í Reykjavík bréf til kynningar á sér fyrir nýafstaðið prófkjör.  Mér var einnig ljóst að félagar yrðu eflaust mishrifnir af þessari ákvörðun. Af þessu tilefni vil ég taka eftirfarandi fram: Félagaskrá Líffræðifélagsins er ekki leyndarmál og engin ákvæði í lögum félagsins um meðferð hennar.  Í vetur hefur verið rætt um það í stjórn félagsins, hvort rétt væri að dreifa félagaskránni með fréttabréfinu.  Þær vangaveltur voru lagðar á hilluna m.a. vegna umfangs félagaskrárinnar og fyrirsjáanlegs kostnaðar. Ég taldi mér því ekki stætt á því að synja beiðni Össurar, enda Össur félagi í L.Í.  Þessa ákvörðun tók ég einn og án samráðs við stjórnina. Vera má að ástæða sé til að setja í lög félagsins ákvæði um notkun félagskrárinnar.  Í því sambandi er bent á að aðalfundur félagsins er í apríl.
Guðjón.

Næsti fyrirlestur

Næsti fyrirlestur félagsins verður haldinn miðvikudaginn 10. marz.  Þá mun Stefanía Þorgeirsdóttir flytja fyrirlestur sem hún nefnir: 
Príon sjúkdómar í mönnum og dýrum – áhrif arfgerða príongensins.