Guðmundur og Sigrún verðlaunuð fyrir vísindastörf

liffraediradstefna_verdlaun_2Guðmundur Eggertsson, prófessor emeritus við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og Sigrún Lange, lektor við Westminster-háskólann í London, tóku við viðurkenningum við setningu Líffræðiráðstefnunnar fyrr í dag. Guðmundur hlýtur viðurkenningu fyrir ævistarf sitt í líffræði og Sigrún Lange fyrir góðan árangur ungs vísindamanns. Ragnar Axelsson ljósmyndari setti ráðstefnuna og afhenti Guðmundi og Sigrúnu viðurkenningarnar. Þau halda bæði erindi um rannsóknir sínar á ráðstefnunni að morgni 6. nóvember.
 
Um Guðmund Eggertsson
Guðmundur fæddist að Vatnshorni í Skorradal árið 1933 og ólst upp á Bjargi í Borgarnesi.  Hann útskrifaðist aðeins 18 ára gamall frá Menntaskólanum á Akureyri og hélt svo utan til náms í grasafræði við Kaupmannahafnarháskóla. Óhætt er að segja að Guðmundur hafi upplifað spennandi tíma á námsárum sínum í Kaupmannahöfn en þá voru að hefjast rannsóknir á starfsemi erfðaefnisins með lífefnafræðilegum aðferðum.  Í kjölfarið voru gerðar margar merkar rannsóknir sem ollu straumhvörfum á skilningi manna á erfðaefninu og starfsemi frumna.  Guðmundur var í miðri hringiðunni og fljótlega kviknaði áhugi hans á hinu nýja sviði sem markaði upphaf sameindalíffræðinnar.  
 
Guðmundur sneri sér að erfðafræði á þriðja námsári sínu í Kaupmannahöfn og lauk prófi í faginu árið 1958.  Í kjölfarið starfaði hann við rannsóknir í Kaupmannahöfn og London. Tveimur árum síðar lá leið hans til Bandaríkjanna þar sem hann stundaði rannsóknir við Yale-háskóla og lauk þaðan doktorsprófi árið 1965.  Þar kynntist Guðmundur frumkvöðlum erfðatækninnar en sjálfur hefur hann alla tíð helgað sig grunnrannsóknum og verið mikill áhugamaður um framgang þeirra. Frá Yale-háskóla hélt Guðmundur til Ítalíu og stundaði þar rannsóknir.  Þaðan var hann svo kallaður heim þegar hefja átti kennslu í líffræði við Háskóla Íslands og var hann fyrsti prófessorinn í greininni við skólann.  
 
Óhætt er að segja að Guðmundur hafi verið mikill brautryðjandi við í háskólakennslu og rannsóknum í líffræði hér á landi.  Hann starfaði sem prófessor við líffræðiskor Háskóla Íslands frá 1969 til 2004 og fyrstu árin kenndi hann líffræðinemum örverufræði og frumulíffræði auk erfðafræðinnar.  Guðmundur hefur stundum verið nefndur faðir erfðafræðinnar á Íslandi en líklega er þó faðir sameindalíffræðinnar meira réttnefni.  Með starfi sínu átti hann einna stærstan þátt í að undirbúa íslenskt samfélag fyrir öflugar rannsóknir og atvinnutækifæri sem eiga rætur í faglegri kennslu og vísindastarfi.  
 
Lengst af rannsakaði Guðmundur svokallaðar tRNA-sameindir, sem eiga þátt í þýðingu erfðaefnisins, og áhrif stökkbreytinga á starfsemi þeirra.  Seinni hluta starfsævinnar einbeitti hann sér  að erfðafræðilegum rannsóknum á hitakærum bakteríum og eftir hann liggja fjölmargar merkar greinar á sviði bakteríuerfðafræði.
 
Háskóli Íslands, vísindasamfélagið og íslenska þjóðin öll eiga honum því mikið að þakka og því að hann skyldi svara kallinu um að koma heim.  Undanfarin ár hefur Guðmundur helgað sig skrifum og gefið út þrjár bækur á íslensku fyrir almenning þar sem leyndardómar lífsins og erfðafræðinnar eru reifaðir.  Þar nýtir Guðmundur sinn einstaka hæfileika til að setja flókin viðfangsefni fram á skýran og skiljanlegan hátt.  
 
Um Sigrúnu Lange
Sigrún Lange stundar taugakerfisrannsóknir við University College London og var nýlega skipuð lektor í meinafræði við Westminster -háskólann í London. Sigrún útskrifaðist með BS-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1999, MS-prófi árið 2001 og doktorsprófi árið 2005 þar sem hún rannsakaði ónæmisfræði fiska undir leiðsögn Bergljótar Magnadóttur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Sigrún vann hluta meistara- og doktorsrannsókna sinna við Háskólann í Tromsø, Háskólasjúkrahúsið í Basel og MRC Immunochemistry Unit við Oxford-háskóla. Á þessu tímabili lagði Sigrún m.a. grunn að rannsóknum á þroskun, hlutverki  og virkni ýmissa ónæmisþátta í beinfiskum. Hún  var enn fremur virkur þáttakandi í alþjóðlegu samstarfi á þessum árum. Árið 2005 fékk Sigrún Prof. Axelsson‘s „Young Investigator‘s Award“ (Actavis pharmaceutics) fyrir doktorsritgerð sína.
 
Eftir doktorsnám flutti Sigrún til London þar sem hún hefur unnið við mænuskaðarannsóknir við UCL Institute of Child Health (2006-2010), rannsóknir á heilaskaða nýbura við UCL Institute for Women´s Health (2010-2013) og við Evrópuverkefnið Human Brain Project við UCL School of Pharmacy (2013-).
 
Sigrún hefur rannsakað örbólur í taugafrumum og m.a. lýst nýju hlutverki svokallaðra PAD-ensíma og PAD-hindrandi lyfja við skaða í miðtaugakerfinu og í krabbameini í blöðruhálskirtli. Hún hefur birt fjölda vísindagreina í virtum tímaritum á þessum fræðasviðum, yfirlitsgreinar og bókakafla, og verið gestafyrirlesari á alþjóðlegum málþingum. Sigrún er nýskipaður lektor í meinafræði við Westminster-háskólann í London þar sem hún mun halda áfram rannsóknum sínum á PAD-ensímum og nýjum lyfjameðferðum við taugaskaða, taugahrörnunarsjúkdómum og krabbameini í blöðruhálskirtli í samvinnu við ýmsa samstarfsaðila í Bretlandi og Bandaríkjunum. Notkun sérhæfðra lyfja sem vinna gegn óeðlilegri virkni PAD-ensímanna, sem Sigrún rannsakar, býður því hugsanlega upp á nýja möguleika fyrir blandaðar lyfjameðferðir, bæði við taugakerfisskaða og gegn krabbameinum.
 
Bæði Sigrún og Guðmundur kynna rannsóknir sínar á Líffræðiráðstefnunni sem hófst í dag í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, og stendur fram á laugardag. 
 
Alls verða þar flutt yfir 100 erindi um ýmsar hliðar líffræðinnar og má finna dagskrá ráðstefnunnar á heimasíðu hennar.