Doktorsvörn Innan- og utanfrumu stjórnun frumusérhæfingar og frumudauða í brjóstkirtli – 29. apríl

Bylgja Hilmarsdóttir ver doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum, sem ber heitið: Innan- og utanfrumu stjórnun frumusérhæfingar og frumudauða í brjóstkirtli. (Extrinsic and intrinsic regulation of breast epithelial plasticity and survival.)

Andmælendur eru dr. Frederik Vilhardt, dósent við Háskólann í Kaupmannahöfn, og dr. Stefán Þ. Sigurðsson, dósent við Læknadeild Háskóla Íslands.

Umsjónarkennari var dr. Þórarinn Guðjónsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, og leiðbeinandi var Magnús Karl Magnússon, deildarforseti og prófessor við sömu deild. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, dr. Haraldur Halldórsson, lífefnafræðingur og verkefnastjóri hjá Læknadeild Háskóla Íslands, og Rósa Björk Barkardóttir, sameindalíffræðingur og klínískur prófessor við sömu deild.

Dr. Inga Þórsdóttir, prófessor og forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.

Ágrip af rannsókn

Myndun greinóttrar formgerðar í brjóstkirtli er stjórnað af innan- og utanfrumu boðum, meðal annars boðefnum sem seytt er frá frumum í nærumhverfi kirtilsins. Bandvefsumbreyting þekjufrumna (e. EMT) og viðsnúningur á því ferli, þekjufrumuumbreyting bandvefsfrumna (e. MET), eru ferlar sem taldir eru ýta undir sveigjanleika í svipgerð frumna og leika hlutverk í myndun meinvarpa, sérstaklega þar sem EMT eykur frumuskrið og þol/viðnám gegn anoikis.

Markmið þessa verkefnið var að rannsaka stjórnun innan- og utanfrumu boða á EMT-MET ferlinu í þrívíðri rækt og nota til þess D492 brjóstafrumulínuna. Í samrækt með D492 örvuðu æðaþelsfrumur myndun greinóttrar formgerðar og EMT-umbreytingu D492 fruma. Tjáning á ncRNAs í bandvefslíku dótturfrumulínunni D492M var mjög frábrugðin D492 móðurlínunni.  Mestur var munurinn á niðurslætti miR-200 fjölskyldunnar og aukin tjáning á ncRNAs á DLK1-DIO3 lókusnum. Yfirtjáning á miR-200c-141 hindraði EMT og olli MET í D492M. Við yfirtjáningu á miR-200c-141 og umritunarþættinum ∆Np63 í D492M endurheimti frumulínan eiginleikann til að mynda greinótta formgerð í 3D rækt. Rannsóknir á hindrun PTP1B með lyfjahindra sýndi stýrðan frumudauða í D492, með svipgerð anoikis. D492M er næmari fyrir PTP1B hindrun en D492.
Sýnt var fram á að utanfrumuboð frá æðaþelsfrumum geta haft mikil áhrif á vöxt og formgerð þekjuvefs brjóstkirtilsins, þ.m.t. EMT. Einnig fundust ncRNAs sem sýna breytt tjáningarmynstur vegna þessara boða. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna jafnframt fram á að PTP1B virðist hafa áhrif á lifun frumna gegnum frumu-frumutengsl.

Um doktorsefnið
Bylgja Hilmarsdóttir er fædd árið 1983. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2003 og BS-prófi í lífefnafræði frá Háskóla Íslands árið 2008. Bylgja innritaðist í doktorsnám í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands árið 2010 og hafði þá nýlokið MS-gráðu í sama fagi frá deildinni. Sambýlismaður Bylgju er Jónas Hlíðar Vilhelmsson og eiga þau þrjú börn.