Náttúruminjasafn Íslands hefur verið á hrakhólum eða teikniborði í áratugi. Nýtt framtak félagsmanna í HÍN og annara hollvina safnsins var að stofna hlutafélag sem stendur straum að stofnkostnaði við uppbyggingu og hönnun safnsins. Bréf þess efnis barst félagsmönnum í HÍN, og hvetjum við sem flesta til að leggja málinu lið.
—————-
Hvatning til félagsmanna í Hinu íslenska náttúrufræðifélagi um þátttöku í Perluvinum ehf.
Náttúra Íslands er undirstaða grunnatvinnuvega landsins, einstök á heimsvísu og aðdráttarafl fyrir unga sem aldna og sívaxandi fjölda ferðalanga sem sækja land okkar heim. Það er í hrópandi ósamræmi við þetta að þjóðinni og gestum landsins skuli ekki standa til boða vegleg og glæsileg sýning sem fræðir og skemmtir um íslenska náttúru, undur hennar og furður. Reykjavíkurborg hefur ákveðið að bjóða fram Perluna í Öskjuhlíð sem húsnæði í þessu skyni.
Samkvæmt tillögu sem nú liggur fyrir borgarráði mun verða auglýst eftir hugsanlegum samstarfsaðilum við Reykjavíkurborg um náttúrusýninguna.
Perluvinir eru hópur sem frá árinu 2012 hefur hvatt til uppbyggingar slíkrar sýningar í Perlunni. Þeir sem lagt hafa mat á Perluna til slíkra nota eru sammála um að leitun sé að stað sem sameinar eins marga kosti fyrir náttúrusýningu. Perlan hefur ein og sér mikið aðdráttarafl sem sérstök og fögur bygging og þaðan er einstakt útsýni til alls Faxaflóasvæðisins. Fyrir ferðamenn, skólaæsku sem og aðra verður heimsókn á nýstárlega og nútímalega náttúrusýningu á þessum stað ógleymanlegur viðburður.
Að undirbúningi og viðhaldi náttúrusýningar í Perlunni þurfa m.a. að koma háskólar og fleiri rannsóknastofnanir, hönnuðir, náttúrufræðingar, kennarar, kunnáttufólk á sviði margmiðlunar og fulltrúar frá helstu sviðum atvinnulífsins. Slík sýning mun varpa ljósi á náttúru Íslands, sérkenni hennar og þróun, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd. Sýningin mun þannig auka skilning á náttúru Íslands og dýpka upplifun af kynnum við landið. Töluverður hluti þeirra sem sækir Ísland heim mun vafalaust skoða slíka sýningu og því ætti fjárhagsgrundvöllur að vera fyrir hendi með aðgangseyri.
Perluvinir ehf. er félag sem var stofnað á fundi í Safnahúsinu 27. október s.l. Tilgangur félagsins er að taka þátt í að koma upp og reka sýningu um náttúru Íslands í Perlunni í samvinnu við Reykjavíkurborg. Við stofnun félagsins skráðu 60 einstaklingar sig fyrir hlutafé í félaginu. Alls safnaðist 2,1 milljón króna á stofnfundinum en stefnt er að því að safna nú alls 10 milljónum króna til að standa straum af fyrstu skrefum undirbúnings sem fela m.a. í sér frumhönnun á náttúrusýningu í Perlunni og gerð viðskiptaáætlunar um uppbyggingu hennar og rekstur. Viðræður hafa átt sér stað við nokkra hugsanlega fjárfesta en endanlegar ákvarðanir um slíkt verða teknar þegar niðurstöður í útboði Reykjavíkurborgar liggja fyrir.
Ekkert útilokar að Náttúruminjasafn Íslands verði með einum eða öðrum hætti samstarfsaðili að sýningunni á seinni stigum.
Á stofnfundinum voru eftirtaldir kjörnir í stjórn félagsins: Hjörleifur Stefánsson arkitekt, Siv Friðleifsdóttir sjúkraþjálfari, Þóra Ellen Þórhallsdóttir náttúrufræðingur og Finnbogi Jónsson verkfræðingur og hagfræðingur sem jafnframt er formaður. Í varastjórn voru kjörin Álfheiður Ingadóttir líffræðingur og Sveinbjörn Björnsson jarðeðlisfræðingur. Stjórnin hefur ráðið Helgu Viðarsdóttur markaðs- og viðskiptafræðing sem framkvæmdastjóra félagsins. Samþykktir félagsins eru með hefðbundnum hætti að öðru leyti en því sem Helgi Jóhannesson, lögfræðingur, fundarstjóri á stofnfundinum í Safnahúsinu vakti athygli á, en það var, að við slit á félaginu er gert ráð fyrir að helmingur eigna félagsins umfram hlutafé renni til Hins íslenska náttúrufræðifélags.
Með þessari hvatningu vill stjórn Perluvina ehf. hvetja félaga í Hinu íslenska náttúrufræðifélagi að gerast hluthafar í Perluvinum ehf. Hver hlutur er 25 þúsund krónur og geta menn skráð sig fyrir þeirri upphæð eða margfeldi af henni. Þeim sem vilja gerast þátttakendur er bent á að senda tölvupóst á netfangið helga@perluvinir.is með nafni, kennitölu og upphæð sem viðkomandi hefur áhuga að skrá sig fyrir. Þeim sem tilkynna að þeir vilji vera hluthafar í félaginu er bent á að koma á hluthafafund Perluvina ehf. sem haldinn verður í Safnahúsinu fimmtudaginn 10. desember kl. 16.00. Þar verður m.a. gerð grein fyrir stöðu mála á þessu stigi. Perluvinir eru þess fullvissir um að nú sé rétta tækifærið til að láta 126 ára draum frumkvöðla Hins íslenska náttúrufræðifélags rætast og að fylkja skuli liði til að koma upp náttúrusýningu í Perlunni sem sé þjóð og landi til sóma. Nú skiptir öllu máli að raunverulegur metnaður ríki við uppsetningu væntanlegrar sýningar og gæði hennar verði í samræmi við væntingar.
Reykjavík 4. desember 2015
F.h. stjórnar Perluvina ehf.
Helga Viðarsdóttir, Framkvæmdarstjóri
Finnbogi Jónsson, stjórnarformaður