Sigríður Helga Þorbjarnardóttir – minningarorð

SigridurHelgaThorbjarnadottir_RannveigThoroddsen2009

Við minnumst Sigríðar Helgu Þorbjarnardóttur með hlýju og þakklæti. Hún var dásamleg kona og fjölhæf með eindæmum, göngugarpur og ferðafrömuður, hafði náðargáfu fyrir sameindalíffræði, kennari af guðs náð og farsæll formaður Líffræðifélags Íslands. Margir voru þeirrar gæfu aðnjótandi að ganga með Siggu á vegum Ferðafélagsins eða í öðrum ferðum um nágrenni Reykjavíkur. Ferðir sameindahópsins t.d. á Keili og Reynivallaháls eru okkur sérstaklega minnistæðar.

Í samstarfi við Guðmund Eggertsson stundaði hún merkar rannsóknir og kenndi verklegar æfingar í erfðafræði og sameindaerfðafræði. Minningin um Siggu með bakteríuskálar á lofti í kennslustofunni lifir með flestum líffræðingum sem útskrifuðust frá Háskóla Íslands eftir 1980. Hennar einstaka og ljúfa persóna hafði jákvæð áhrif á nemendur og gerði þungar lexíur auðveldari viðfangs. Seinna fékk ég að kenna með Sigríði. Til að undirbúa verklega tíma í erfðafræði fórum við saman í fjöru að sækja þang – til að rækta þangflugulirfur – og espuðum lauk til spírunar. Verklegu tímarnir voru hennar heimavöllur. Hún þekkti efnið inn og út og miðlaði til nemendanna af alúð og nærgætni.

Það voru sérstök forréttindi að kenna með Siggu og fá að stunda rannsóknir undir hennar leiðsögn. Sigga var nærgætinn og mildur leiðbeinandi, í raun frekar samstarfsmaður en yfirmaður. Hún kenndi framhaldsnemum fræði og aðferðir, og það sem mikilvægara er, hvernig yfirstíga má vandamál sem upp koma í flóknum tilraunum. Undir hennar verndarvæng fengu nemar að þroskast og finna sína fjöl. Hún var yfirvegaður og grandvar vísindamaður, laus við stærilæti eða yfirgang. Lagni hennar með gen og frumur var annáluð, í hennar höndum fengust bakteríur til stórkostlegra verka.

Sigríður var formaður Líffræðifélags Íslands 1988 til 1991, og var starfið í miklum blóma á þeim árum. Hún var vel metin í samfélagi íslenskra líffræðinga og góð fyrirmynd um hvernig brúa má víddir líffræðinnar, sem sameindalíffræðingur með brennandi náttúruást eða náttúruunnandi sem rannsakaði leyndardóma genanna.

Það er synd að Sigga skuli ekki fá að njóta fjölskyldu sinnar, vina og starfs lengur en skyldi. Ég, sem nemi, samstarfsmaður og vinur, sakna hennar sárt.

Sem vinur og fyrir hönd Líffræðifélags Íslands votta ég aðstandendum og vinum hennar samhug og virðingu.

Arnar Pálsson, dósent og formaður Líffræðifélags Íslands.

Mynd af Sigríði og Rannveigu Thoroddsen var tekin á líffræðiráðstefnunni 2009.