Greg Gibson starfar við tækniháskólann í Georgíu og vinnur að rannsóknum á mannerfðafræði.
Hann mun halda yfirlitserindi á líffræðiráðstefnunni 7. nóvember nk, um morguninn.
Hann mun fjalla um rannsóknir á áhrifum samspils gena og umhverfis á flókna erfðasjúkdóma. Samspil gena í ólíkum ferlum og kerfum líkamans er oft ansi flókið og ófyrirsjáanlegt. Gögn benda til þess að faraldur algengra erfðasjúkdóma eigi sér rætur í samspili gena og umhverfis. Hröð þróun vissra gena mannsins og miklar breytingar á umhverfi okkar síðustu kynslóðir gæti hafa afhjúpað dulin erfðabreytileika, sem hafa áhrif á líkurnar á algengum sjúkdómum.
Gibson er þroskunarerfðafræðingur sem hefur einbeitt sér að rannsaka eðli og orsakir breytileika í svipfari. Hann hefur lagt sérstaka áherslu á að kanna hulin erfðabreytileika, sem birtist bara við ýktar umhverfisaðstæður eða þegar alvarlega stökkbreytingar finnast í einstaklingum.
Helstu uppgötvanir hans eru.
Algengir erfðasjúkdómar eru að stórum hluta tilkomnir vegna breytinga á umhverfi manna síðustu aldir.
Erfðabreytileiki getur verið hulinn við einar aðstæður – en afhjúpast við aðrar.
Breytileiki í genatjáningu í blóði er undir sterkari áhrifum umhverfis en gena.
Þekking á breytileika í genatjáningu og frumum getur hjálpað okkur að nýta erfðaupplýsingar í meðhöndlun einstaklinga.