Ljósmyndasamkeppni um loftlagsbreytingar #mittframlag

Evrópustofa, Náttúruverndarsamtök Íslands, Umhverfisstofnun, Reykjavíkurborg, Franska sendiráðið og Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna standa saman að ljósmyndaleik í sumar með það að markmiði að vekja almenning til umhugsunar um orsakir og afleiðingar loftlagsbreytinga.

Fólk er hvatt til að taka mynd af því sem fyrir augu ber og minnir með einhverjum hætti á loftlagsbreytingar og merkja myndina #mittframlag á Instagram, Twitter eða deila henni á Facebook síðu eða vefsíðu verkefnisins www.mittframlag.is. Með því einfaldlega að merkja myndina myllumerkinu #mittframlag og deila er fólk búið að taka þátt í myndaleiknum. Myndirnar í leiknum má skoða á vefsíðunni www.mittframlag.is en þar safnast þær saman af samfélagsmiðlum.

Ein af mörgum áskorunum náttúruverndarsamtaka, stjórnavalda og annarra sem vinna að málefnum náttúruverndar er að upplýsa og virkja almenning. Fæst okkar sækja ráðstefnur um loftlagsbreytingar og yfirleitt er kallað á sérfræðinga og stjórnmálamenn til að ræða þessi mál. Hinsvegar koma loftlagsbreytingar öllum jarðarbúum við. Með því að fá almenning á sveif gegn loftlagsbreytingum skapast þrýstingur á stjórnvöld, fyrirtæki og áhrifaaðila til að sinna þessum málaflokki betur þar sem að almenningur öðlast þekkingu um mikilvægi baráttunnar gegn loftslagsbreytingum.

Þeir sem að ljósmyndaleiknum #MittFramlag standa telja mikilvægt að vekja athygli á vandanum meðal almennings með áherslu á allt það smáa sem hver og einn getur lagt af mörkum á hverjum degi til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Einfalt er að tengja aukna árvekni um loftlagsbreytingar við samfélagsmiðla og hafa gaman af í leiðinni. Engar reglur gilda um myndefnið, fólki er frjálst að setja allt það inn á Instagram, Twitter og Facebook sem minnir það á loftlagsbreytingar með einhverjum hætti.