Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, vísindamaður og kennslustjóri framhaldsnáms við Læknadeild Háskóla Íslands, mun fjalla um rannsóknir á fisksjúkdómum og þróun forvarna gegn sjúkdómum í fiskeldi í fimmta erindi fyrirlestraraðarinnar Vísindi á mannamáli í Háskóla Íslands. Rannsóknirnar stundaði Bjarnheiður á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Erindið verður í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 24. mars nk. kl. 12.10.
Háskóli ÍslandsFiskeldi er í miklum vexti á heimsvísu en um helmingur fiskafurða kemur nú úr eldi. Kýlaveikibróðir er sjúkdómur sem herjar á allar tegundir í fiskeldi á Íslandi, en hann orsakast af bakteríunni Aeromonas salomonicida. Í erindinu verða kynntar rannsóknir á eðli bakteríunnar og samspili hennar við hýsil, bæði í sýkingu og við myndun ónæmisvarna. Margar bakteríur nota sérstök samskiptakerfi byggð á þéttniskynjun til að stjórna tjáningu gena við mismunandi aðstæður. Í ljós hefur komið að bakterían sem veldur kýlaveikibróður nýtir þéttniskynjun til að stjórna framleiðslu sýkiþátta. Með tilraunum var hægt að rjúfa þéttniskynjun bakteríunnar og draga þannig úr sýkingarmætti. Mikill munur er á ónæmisviðbrögðum í laxfiskum og þorski gegn sýkingu bakteríunnar. Sá munur þýðir að bólusetningar í forvararskyni henta laxfiskum en ekki þorski.
Bjarnheiður og félagar uppgötvuðu við rannsóknir sínar að Keldum áður óþekkt bakteríueitur, ensímið AsaP1, sem reyndist öflugur mótefnavaki. Með erfðatækni voru útbúin stökkbreytt óeitruð afbrigði (toxoíð) af AsaP1 ensíminu, sem gáfu samt mótefnasvar. Geni fyrir óeitraða afbrigðið var komið fyrir í bakteríunni. Þessi erfðabreytti stofn var síðan notaður til að bólusetja bleikju. Tilraunir leiddu í ljós að bóluefnið veitir öfluga vörn gegn kýlaveikibróður í laxfiskum. Erfðafræðilegar aðferðir hafa ekki áður verið notaðar til að útbúa toxoíð fyrir fiskabóluefni en bóluefni fyrir menn eru mörg byggð á slíkum prótínum. Þessar rannsóknir hafa leitt í ljós nýja þekkingu á eðli sýkilsins og samspili hans við hýsil sinn sem nýta má við þróun öflugra sjúkdómsvarna.
Á Íslandi er fyrirhuguð mikil aukning í eldi laxfiska og Senegal-flúru á komandi árum. Auk þess er Ísland stærsti útflytjandi laxahrogna í heiminum. Fæðuframboð og umhverfisþættir setja fiskeldi skorður og eru afföll vegna sjúkdóma um 10%. Góðar vistvænar forvarnir gegn smitsjúkdómum eru því mjög mikilvægar fyrir uppgang atvinnuvegarins.
Um Bjarnheiði K. Guðmundsdóttur
Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir lauk BS-gráðu í líffræði frá Raunvísindadeild Háskóla Íslands árið 1972 og B.Ed.-gráðu frá Kennaraháskóla Íslands árið 1981. Hún starfaði sem grunnskólakennari frá 1974-1985, við Líffræðistofnum Háskóla Íslands 1985-1986 en hóf í kjölfarið störf við Rannsóknadeild fisksjúkdóma á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og starfaði þar til 2014. Árið 1997 lauk hún doktorsprófi í Líf- og læknavísindum frá Læknadeild Háskóla Íslands. Hún var aðjúnkt í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Læknadeild frá 2002-2014 en tók nýverið við starfi kennslustjóra framhaldsnáms við Læknadeild. Bjarnheiður hefur verið hópstjóri á Lífvísindasetri Háskóla Íslands frá árinu 2011.
Síða Bjarnheiðar K. Guðmundsdóttur
Um fyrirlestraröðina
Vísindi á mannamáli er ný fyrirlestraröð Háskóla Íslands sem hófst haustið 2014 að frumkvæði Lífvísindaseturs og Líffræðistofu Háskóla Íslands. Markmiðið er að varpa ljósi á það hvernig vísindamenn háskólans reyna að afhjúpa leyndardóma náttúrunnar og hvaða þýðingu vísindarannsóknir hafa fyrir daglegt líf fólks. Erindið er öllum opið meðan húsrúm leyfir.