Doktorsnemi í stofnfrumu- og krabbameinsrannsóknum við Lífvísindasetur Háskóla Íslands
Auglýst er eftir doktorsnema við Háskóla Íslands til að vinna að rannsóknarverkefninu „ Samskipti æðaþels og þekjuvefsstofnfruma í eðlilegum og illkynja brjóstkirtli”. Nemandinn mun vinna undir leiðsögn dr. Þórarins Guðjónssonar prófessors við Líffærafræði Læknadeildar innan heilbrigðisvísindasviðs og Lífvísindaseturs HÍ.
Verkefnið er stutt af Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands og æskilegt að nemandi sinni doktorsnámi í fullu starfi á styrktímabilinu en áætlað er að doktorsnámið taki þrjú ár.
Markmið verkefnisins er að auka skilning á hlutverki þekjuvefsstofnfruma í þroskun og sérhæfingu brjóstkirtils og hvernig stofnfrumur tengjast myndun og framþróun æxlivaxtar. Í þessu samengi verður markmiðið að rannsaka hvernig æðaþel í brjóstkirtli miðlar frumufjölgunar og sérhæfingar boðum til stofnfruma kirtilsins.
Leitað er eftir nemanda með meistaragráðu í sameinda- og lífvísindum. Góð þekking á á sameinda- og frumulíffræði er nauðsynleg. Umsækjandi verður að hafa góð tök á íslensku og ensku, bæði töluðu og rituðu máli, hafa góða samskiptahæfni og geta unnið sjálfstætt.
Frekari upplýsinga skal leita hjá Þórarni Guðjónssyni professor, tgudjons@hi.is