Skýrsla stjórnar 2014

Skýrsla stjórnar Líffræðifélags Íslands fyrir starfsárið 2013-2014.

Kjarninn í starfi ársins var Líffræðiráðstefnan 2013, sem haldin var 8. og 9. nóvember í Öskju.

Ráðstefnan var með sama sniði og áður, 2 daga fundur með nokkrum yfirlitserindum og 4 samhliða málstofum. Við störfuðum með nokkrum aðillum, sem styrktu einstaka liði ráðstefnunar eða skipulögðu vissar málstofur. T.d. styrkti GPMLS – framhaldsnám í sameindalíffræði erlenda fyrirlesara, James Wohlschlegel frá UCLA, Samtök líffræðikennara skipulagði málstofu af líffræðikennslu (samtökin áttu afmæli á árinu), og málstofur voru skipulagðar í tengslum við skýrslu um vernd og nýtingu villtra dýra og Surtseyjarfélagið.

Alls sóttu um 300 manns ráðstefnuna, erindi voru 108 og veggspjöld 83, auk fjögurra yfirlitserinda. Berljót Magnadóttir hlaut heiðursverðlaun félagsins og Þórður Óskarsson viðurkenningu ungs vísindamanns. Þóra E. Þórhallsdóttir flutti yfirlit um stöðu náttúruverndar Íslandi og Þorvarður Árnason fjallaði um hvort þörf væri á sérstöku ráðuneyti umhverfismála á Íslandi?

Ómar Ragnarsson var fenginn til að opna ráðstefununa og Ingó Veðurguð skemmti á haustfagnaðinum sem haldinn var í Iðusölum við Lækjargötu.

Samfara ráðstefnunni var sett upp ný vefsíða félagsins biologia.is. Hugmyndin er að vefsíðan nýtist til að hýsa gögn tengd ráðstefnum og starfsemi félagsins. Hún ætti einnig að nýtast til að lýsa starfi þess og viðburðum sem stjórn félagsins heldur, tengist, styrkir eða sér ástæðu til að benda félagsmönnum sínum á. Hugmyndir voru um að nýta síðuna einnig sem vísindadagatal, starfagátt eða fyrir pistla um líffræðileg efni, en þær eru ekki komnar til framkvæmda.

Stjórn félagsins ákvað einnig á haustmánuðum 2013 að leggja lóð á vogarskálar umhverfisverndar og vísinda. Hún sendi frá sér ályktanir um umhverfisvernd og um fjármögnun grunnvísinda. Grein stjórnar um fjármögnun grunnvísinda var send fjölmiðlum, en fékk hvergi birtingu.

Stjórnin ákvað að ganga til samstarfs við Stofnun Sæmundar fróða og Verndasamtök norræna laxastofna og halda 2-3 málstofur um umhverfisfræði og líffræði fiskeldis. Fyrsti fundurinn var 14. janúar 2014.

Stjórnin stendur fyrir fundi um sameindalíffræði og stofnfrumurannsóknir 7. mars 2014. Aðalfyrirlesari er Þórður Óskarsson sem hlaut hvatningarverðlaun félagsins 2013. Þrír aðrir ungir sameindalíffræðingar halda erindi um sínar rannsóknir. Samfara fundinum var boðað til aðalfundar þar sem skýrsla þessi er kynnt.

Fyrir hönd stjórnar

Arnar Pálsson formaður

Skýrsla samþykkt af aðalfundi 7. mars 2014.