Erindaröð um umhverfismál, litið til framtíðar
Nú í maí standa Náttúrufræðistofa Kópavogs og Bókasafn Kópavogs fyrir erindaröð um umhverfis- og skipulagsmál. Þrjú stór mál sem tengjast þessum málaflokkum eru ýmist komin eða að komast til framkvæmda. Þar er um að ræða 3. áfanga rammaáætlunar um virkjun vatnsafls og jarðvarma, landsskipulagsstefnu og endurskoðuð náttúruverndarlög. Allt eru þetta málefni þar sem almenningur hefur fengið eða mun fá tækifæri til að koma með athugasemdir og ábendingar um atriði sem betur mega fara, en auk þess verða rammaáætlunin og landsskipulagsstefnan í reglulegri endurskoðun. Hér gefst því afar gott tækifæri til þess að kynnast þessum málum.
Erindaröðin hefst 12. maí en þá mun Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur og formaður verkefnisstjórnar rammaáætlunar kynna áætlunina og hvernig hún verður notuð við ákvarðanatöku vegna nýtingar mögulegra virkjunarkosta framtíðarinnar. Áætlunin er í kynningarferli og geta allir sem áhuga hafa sent inn athugasemdir við skýrslu verkefnisstórnarinnar á tímabilinu 11. maí til 3. ágúst 2016.
Annað erindi raðarinnar verður 19. maí en þá mun Einar Jónsson sviðsstjóri stefnumótunar og þróunar hjá Skipulagsstofnun segja frá landsskipulagsstefnu 2015–2026. Þar er um að ræða heildstæða skipulagsstefnu fyrir Ísland sem tekur til margra ólíkra þátta landnýtingar, svo sem vegagerðar, þéttbýlismyndunar, sumarhúsabyggðar, fiskræktar í ám og við strendur o.m.fl. Landsskipulagið nær nefnilega frá fjöllum til grunnsævisins, fjarða og voga. Það er svo útfærsluatriði sveitarstjórna hvernig þessi stefna er tekin inn í aðal- og deiliskipulög hvers sveitarfélags. Landsskipulagsstefnan verður svo endurskoðuð á hverju kjörtímabili.
Þann 26. maí verður síðasta erindi raðarinnar en þá mun Aagot Vigdís Óskarsdóttir lögfræðingur segja frá nýjum náttúruverndarlögum, en hún kom að samningu laganna sem og gerð Hvítbókar um náttúruvernd sem lagasetningin byggir á. Nokkur átök urðu á Alþingi um setningu þessara laga og var gildistöku þeirra frestað um tíma. Sátt náðist þó um breytingar og tóku þau gildi 15. nóvember 2015.