Nýlegar rannsóknir á spendýrum, fuglum og öðrum tegundum sýna að margar tegundir nálgast nú hættusvæðið eða eru í hættu á að deyja út. Teikn hafa verið á lofti í marga áratugi, en gróðureyðing, skógarhögg og eyðilegging búsvæða veldur því að enn syrtir í álinn.
Rúv var með vandaða fréttaskýringu um þetta mál nýlega – fréttamaðurinn Tryggvi Aðalbjörnsson á hrós skilið. Hér er upphaf umfjöllunar hans.
Stjörnur dýraríkisins á hverfanda hveli
Óttast meiriháttar útrýmingu
Fjórir milljarðar tegunda lífvera hafa þróast á jörðinni á síðustu 3,5 milljörðum ára. Um 99% eru útdauðar. Fyrir 65 milljónum ára dóu 75% dýra- og plöntutegunda í heiminum út á tiltölulega skömmum tíma. Talið er að smástirni eða halastjarna hafi rekist á jörðina og þeytt upp gríðarmiklu ryki sem skyggði á sólarljósið með hörmulegum afleiðingum fyrir flestar lífverur. Meðal tegunda sem þá dóu út voru allar tegundir risaeðla, að forfeðrum fugla undanskildum.
Fimm sinnum í sögu jarðar hafa orðið slíkar hamfarir, af völdum árekstra úr geimnum, risaeldgosa, loftslagsbreytinga og annarra þátta, sem leitt hafa til útrýmingar meirihluta lífs á hnettinum. Nú óttast vísindamenn að sjötta fjöldaútrýmingin sé hafin. Ástæður hennar séu þó allt aðrar – maðurinn.
Anthony Barnosky, fornlíffræðingur við Kaliforníuháskóla, spáir því að eftir um 300 ár verði 75% allra spendýrategunda horfnar, það er að segja ef þær halda áfram að deyja út á sama hraða og nú, og ef allar tegundir sem nú eru á válista verða útdauðar eftir 100 ár.
Framhald greinarinnar má lesa á vef RÚV.
Mynd af tígrisdýri tók Arnar Pálsson í East Lansing Zoo 2014.