Á árshátíð líffræðifélagsins 2015 7. nóvember 2015 flutti Björn Þorsteinsson hátíðarávarp. Það er birt hér með leyfi hans.
Líffræðimenntun á Íslandi á sér ekki ýkja langa sögu. Það er upp úr 1970 sem byrjað er að útskrifa BS líffræðinga við Háskóla Íslands. Á Hvanneyri var byrjað með 2ja ára háskólanám til búfræðikandídats 1948 sem breytt var í 3ja ára BS nám 1967. Þeir sem menntaðir voru áður höfðu allir sótt nám sitt til útlanda.
Ég man nú ekki nákvæmlega hvernig það kom til að ég ákvað að læra líffræði. Einhvern veginn var þetta varla ákvörðun. Á mínum dögum í menntaskólanum við Hamrahlíð á sjöunda áratugnum voru í boði svo mörg valnámskeið í líffræði – að maður var orðinn að töluverðum líffræðingi við stúdentspróf. Ég lærði líffræði til BS gráðu í Háskóla Íslands aðallega við Grensásveg 1978-1981 – Mér skildist að tóbaksmenn úr röðum kennara væru rétt nýlega hættir að reykja í fyrirlestrahaldinu. Minnistæðir kennarar voru m.a. Guðmundur Eggertsson, Arnþór Garðarsson, Agnar Ingólfsson, Guðni Alfreðsson, Jóhann Axelsson, Hörður Kristinsson og fleiri. Stundakennarar voru líka margir eftirminnilegir.
Sumir tímar í efnafræði voru í Tjarnarbíói – þar var blómaskeið myndvarpans – og þeir sem leiknastir voru í myndvarpatækninni höfðu handskrifaðar glærurúllur sem liðu ljúflega yfir skjáflötinn – knúnar af sveif – sjónarspil sem gjarnan vildi blandast í draumlífið.
Úr moði minninganna spretta fram augnablik. Á öðru ári eftir óteljandi verklega tíma hrópar samnemandi upp yfir sig: Ég sé með báðum augum í víðsjánni!
Það er í tilefni af heiðursútnefningu líffræðifélagsins að þessu sinni til Guðmundar Eggertssonar sem mig langar til að setja fram nokkrar hugrenningar. Ég er ekki einn um að hafa orðið fyrir miklum áhrifum af viðkynningu Guðmundar sem nemandi. Ég skynjaði sterkt hversu gripinn og innblásinn Guðmundur var af sínum viðfangsefnum og hversu sterkum tökum lífsgátan hafði tekið hanns hug og veitti honum margháttaðan innblástur. Mér fannst líka sem nemandi að maður hefði öðlast hlutdeild í þessu sem hefur fylgt manni æ síðan. Við sem þekkjum Guðmund vitum líka að hann er listunnandi og unnir mörgu sem fagurt er.
Út frá þessu varð mér hugleikið að það var eiginlega grundvallaratriði að þau viðfangsefni sem maður veldi sér yrðu að uppfylla þessi skilyrði að veita manni persónulegan innblástur, vera mikilvæg og hafa þannig eiginleika að maður yrði vitsmunalega og tilfinningalega eitt með viðfangsefninu og uppfylltu þar að auki einhver fagurfræðileg skilyrði.
Fyrir mörgum árum (nánar tiltekið 1992) rakst ég á grein í tímaritinu Perspectives in Biology and Medicine eftir Maura C. Flannery sem bar einfaldlega titilinn Biology is beautiful. Ég sé í samantekt sem ég gerði frá þessum tíma fyrir nemendur í búvísindum að það væri viðeigandi að rifja upp þarna atriði sem eru lýsandi fyrir þann drifkraft sem einkennir líffræðinga sem eru innblásnir af verkum sínum og viðfangsefnum líkt og við sjáum í persónu Guðmundar og hans ævistarfi. Af hverju upplifum við fegurð í náttúrunni og náttúrufyrirbærum jafnvel í fræðilegri nálgun okkar við þau sem viðfangsefni?
Menn hafa lýst í greinum fegurðarupplifun sinni á mörgum fyrirbærum, t.d. útliti sameinda stórra og smárra, skipulagi erfðaupplýsinga, útliti plantna og dýra o.s.frv. Við vitum að fagurfræðileg upplifun er drifkraftur sköpunar í listum. Ég og margir fleiri erum vissir um að fagurfræði ekki síður drifkraftur í vísindum. Hins vegar skyggja hinir hagnýtu þættir vísindanna oft á þá fagurfræðilegu. Uppgötvun – það að nýtt samhengi vex fram hefur ákveðið fagurfræðilegt gildi. Því sjónahorni er þó sjaldnast haldið til haga í vísindalegum skrifum þar sem “þurr” fræðileg staðreyndaframsetning er hefð.
Nú vita menn að algerlega hlutlæg sýn er draumsýn.Vísindaiðkun er bæði tilfinningalegt (e. emotional) og vitsmunalegt (e. intellectual) viðfangsefni. Ef koma á auga á þá auðgi sem felst í vísindum þá verður að lyfta fram hinum fagurfræðilega þræði viðfangsefnisins. Sé það gert styrkir það tengslin milli raunvísinda og hugvísinda og etv. færir raunvísindi nær samfélaginu og almenningi.
Í hverju felst fegurðin: Hún felst í eiginleikum fyrirbærisins sem skoðað er. Hún felst líka í eiginleikum þess sem skoðar. Við þekkjum nautnina af því þegar þekkingarbrot raðast upp í heildstæðar myndir (próteinmyndun, ljóstillífun, efnaskipti). Þetta getur verið fagurfræðileg reynsla líkt og þegar lesin er vel gerð saga eða annað listaverk skynjað.
Hvað þá um lífið og fagurfræðina með tilvísun til þess sem á undan er gengið? Ef náttúruvísindamenn og náttúruunnendur eru aðnjótandi fagurfræðilegra upplifana þá hljóta viðfangsefni þeirra að hafa fagurfræðilega eiginleika af einhverju tagi. Grunneinkenni líffræði er flokkun og skipulag. Megin viðleitni mannsins er að koma skipulagi á umhverfi sitt, og í því felst árátta hans til að skilja og flokka náttúrufyrirbæri og raða í kerfi. Í þessari flokkunarvinnu er m.a. horft á mynstur, form, hrynjandi osfrv. Frá sameindaþrepi upp í skipulag vistkerfa. Flokkunarviðleitni manna er afrakstur hugarvinnu sem ætlað er að spegla einhvern raunveruleika, en þessi speglun er þó alltaf dæmd til að vera ófullkomin og náttúrunni er alveg sama um hvernig til tekst. Þessi skipulagsvinna er þannig fyrst og fremst manngert fyrirbæri með rými fyrir sköpunarkraft og hugmyndaflug rétt eins og starf listamanns felur í sér. Mynstur er eiginleiki sem er augljós í mörgu samhengi, frá sameinda– eða frumulíffræðiþrepi, til litamynsturs í húð hryggdýrs til tölfræðilegra niðurstaðna. Sum mynstur (t.d. tölfræðileg) verða alls ekki ljós fyrr en eftir langa yfirlegu og rannsókn. Flestir vísindamenn hafa vonandi glaðst yfir að sjá mynstur sem áður var dulið, fæðast sem afrakstur rannsóknar.
Sveiflur/hrynjandi (rytmi) er breyting með reglu (ordered change) og er megineinkenni á mörgum sviðum náttúrunnar allrar og lífsins sjálfs. Dæmi um sveiflur eru t.d. hjartsláttur, vængjasláttur, fuglasöngur árstíðasveiflur, dægursveiflur, mánaðarsveiflur sjávarföll osfrv. Einnig sveiflur í sameindavirkni, hegðun taugafruma. Allar þessar sveiflur stuðla að fjölbreytni í ásýnd náttúrunnar og hvernig við upplifum hana og er þannig mikilvægur þáttur í fagurfræði lífsins.
Jafnvægi (e. balance) er einnig mikilvægur þáttur í lífinu (hér er ég ekki að tala um e. equilibrium). Dæmi: jafnvægi milli sífellds niðurbrots og uppbyggingar, katabolisma og anabolisma. Það ríkir jafnvægi í samskiptum mismunandi tegunda innan vistkerfa sem leiðir til þess að við sjáum einhverskonar harmóníu í því sem við blasir þó að við vitum í raun að það sé í senn óstöðugt og viðkvæmt. Samhverfa er dæmi um form jafnvægis. Þetta er ekki aðeins mikilvægt í formi lífvera heldur einnig í byggingarfræði sameinda. Samhverfa er að vísu ekki algeng í sameindum, en kíralitet (e. chirality) er lykilfyrirbæri í lífefnafræði – munurinn á D og L formum amínósýra og annarra sameinda. Regla í útliti stórsameinda er merkilegt fyrirbæri.
Fegurðarupplifun vísar til reynslu manna af viðfangsefnum sem snerta öll skipulagsþrep frá sameindum og upp í stórar lífheildir (vistkerfi). Þarna er hið augljósa – skírskotun til þess sýnilega, snertanlega, heyranlega og lyktarlega augljós. Þeir sem hafa lífið eða náttúruna sem fræðilegt viðfangsefni hafa aðgang að öðrum víddum sem mótast af þjálfun og þekkingu á viðfangsefninu. Rannsóknavinna leiðir oft til þess að vísindamaðurinn verður eins og eitt með viðfangsefni sínu og oft þróast eins og kærleikssamband milli manns og viðfangsefnis, sem margir hafa lýst í skrifum sínum, kærleikur sem nærist af fagurfræðilegri upplifun mannsins í vinnu sinni. Þessi kennd að vera eitt með viðfangsefninu er bæði tilfinningalegs eðlis og vitsmunalegs eðlis og er forsenda innsæis (e. intuition). Innsæi virðist oft hafa verið afgerandi fyrir lausn á vísindalegum vandamálum eins og lausnir morðgáta í spennusögum lýsa stundum. Hér virðist hin fagurfræðilega nautn felast í leitinni og fyrirhöfninni sem endar með sigri eða lausn. Nokkrir heimspekingar hafa lag áherslu á að nýjung eða uppgötvun sé eitthvað sem vekur mönnum ánægju sem kalla má fagurfræðilega, ekki síst ef þær eru óvæntar. Fátt skemmtilegra en óvæntar gjafir sem hitta í mark (alltaf gaman að fá pakka). Stundum passa þó ekki gjafirnar!
Allir þessir þættir sem varða fagurfræðilega eiginleika fyrirbæra og upplifun þeirra sem slíkra mótar umgengi okkar við náttúruna hvort sem við eru almennir náttúruunnendur eða vísindamenn. Sennilega hefur hæfileikinn til fagurfræðilega upplifun á náttúrunni aðlögunargildi fyrir okkur sem tegund. Sá sem gleðst yfir bláma himinsins, litbriðgum mýrarinnar og klettaröðlanna handanvið á auðveldari dag framundan.
Björn Þorsteinsson
Líffræðingur og rektor Landbúnaðarháskóla Íslands