Dagana 4. til 7. september næstkomandi verður haldin í Reykjavík alþjóðleg ráðstefna um vistfræði, nýtingu og vernd orrafugla (International Grouse Symposium). Rjúpan tilheyrir einmitt orrafuglum. Ráðstefnan er vettvangur fyrir bæði fræðimenn og áhugamenn um líffræði orrafugla til að hittast og fjalla um þennan merkilega hóp fugla. Þetta er í þrettánda skipti sem þingið er haldið og nú í fyrsta skipti á Íslandi.
Á ráðstefnunni verða niðurstöður rannsókna kynntar í 75 erindum og á um 40 veggspjöldum. Þar af eru tólf viðburðir um niðurstöður rannsókna á íslensku rjúpunni. Náttúrufræðistofnun Íslands ber ábyrgð á skipulagi ráðstefnunnar en í undirbúningsnefndinni sitja að auki fulltrúar Háskóla Íslands, Verkís, SKOTVÍS og Fuglaverndar. Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, mun setja ráðstefnuna. Ráðstefnustaðurinn er Hilton Reykjavik Nordica.
Daginn áður en ráðstefnan hefst, þann 3. september, verður haldinn vinnustofa um hvernig megi beita nýjustu tækni við könnun á búsvæðum og fæðuvali grasbíta líkt og orrafugla.
Ráðstefnan er öllum opin og hægt er að skrá sig á vef International Grouse Symposium 2015. Þar eru einnig lýsingar á ráðstefnunni og vinnufundinum.