Nýr náttúrufræðingur

Út er komið 1.-2. hefti Náttúrufræðingsins, 85. árgangs, stútfullt af fjölbreyttu efni um náttúru landsins og rannsóknir á henni.

Nokkrar greinar fjalla um líffræðileg efni, m.a.

Skúli Skúlason ritar leiðara um Verðmæti hálendisins.

Karl Gunnarsson, Guðrún G. Þórarinsdóttir og Óskar Sindri Gíslason segja frá 15 tegundum framandi sjávarlífvera sem fundist hafa hér við land á undanförnum árum, m.a. grjótkrabba, flundru, og einnig ögn, sem er lítið krabbadýr sem prýðir forsíðu heftisins.

PKD-nýrnasýkingar í laxfiskum varð fyrst vart á Íslandi 2008 og Árni Kristmundsson og Ragnhildur Þ. Magnúsdóttir skýra frá rannsóknum á mosadýrum, lítt þekktum dýraflokki sem talinn er gegna hlutverki millihýsils í þessum alvarlega fisksjúkdómi.

Agnes-K.Kreiling, Matthías Alfreðsson og Erling Ólafsson segja frá nýrri bjöllu, sniglanárakka, sem fannst sumarið 2012 á Mógilsá, en þetta litla skógardýr er algengt á meginlandi Evrópu og lifir einkum á sniglum.

Hvernig hegða ungir laxfiskar sér í fæðuleit og á óðali? Stefán Óli Steingrímsson, T. D. Tunney og Guðmundur Smári Gunnarsson hafa rannsakað atferli ungra laxfiska, bleikju, urriða og laxa, en töluverður munur er á bæði einstaklingum, stofnum og tegundum í þessu efni.

Þegar alnæmisveiran ræktaðist fyrst úr manni í kringum 1980 var vitnað til rannsókna á visnu og mæði sem fram fóru á Íslandi í kringum miðja síðustu öld. Þessir sjúkdómar léku sauðfjárstofn landsmanna illa, en mæði og visna barst hingað með karakúlfé árið 1933. Björn Sigurðsson forstjóri Keldna lýsti þessum sjúkdómum fyrstur manna sem hæggengri veirusýkingu á árinu 1954. Halldór Þormar skrifar um upphafið að rannsóknum á lentiveirum, en svo eru þessar hæggengu sjúkdómsvaldandi veirur nefndar.

Í Vopnafirði er ísalt lón, Nýpslón, sem Vesturdalsá fellur í. Ingi Rúnar Jónsson og Þórólfur Antonsson rannsökuðu farleiðir sjóbleikju úr ánni um lónið og út í sjó og renna niðurstöður þeirra stoðum undir þá tilgátu að vegna lónsins dveljist bleikjan lengur utan árinnar en ef áin félli beint til sjávar.

Þverun fjarða hefur löngum verið umdeild og því varð það 1985, sex árum áður en Dýrafjörður var þveraður 1991, að gerðar voru umfangamiklar vistfræðirannsóknir m.a. á hryggleysingjum í leirum, fjörum og á botni fjarðarins. Þessar rannsóknir voru endurteknar á árunum 2007–2008. Þorleifur Eiríksson, Böðvar Þórisson og Guðmundur Víðir Helgason bera saman niðurstöður þessara tveggja rannsóknartímabila og telja að erfitt sé að benda á sérstakar breytingar sem rekja megi til þverunarinnar, nema í námd við brúarhafið.
 

Við hvetjum þá sem forvitnir eru um líf á og rannsóknir í líffræði á Íslandi til að ná sér í eintak og lesa.

Út er komið 1.-2. hefti Náttúrufræðingsins, 85. árgangs, stútfullt af fjölbreyttu efni um náttúru landsins og rannsóknir á henni. – See more at: http://nmsi.is/natturufraedingurinn-2/argangar-og-hefti/#sthash.yPXKdFrG.dpuf