Þriðjudaginn 9. júní ver Óskar Sindri Gíslason doktorsritgerð sína í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Landnám grjótkrabba (Cancer irroratus) við Ísland (Invasion of the Atlantic rock crab (Cancer irroratus) in Icelandic waters).
Andmælendur eru dr. Erik Bonsdorff, prófessor við Åbo Akademi University í Turku í Finnlandi, og dr. Bernd Hänfling, vísindamaður við Háskólann í Hull í Bretlandi.
Leiðbeinandi var dr. Jörundur Svavarsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og dr. Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum.
Dr. Eva Benediktsdóttir, dósent og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.
Ágrip af rannsókn
Í doktorsverkefninu eru landnámi grjótkrabba (Cancer irroratus) við Ísland gerð skil, útbreiðslu hans við landið, þéttleika og erfðabreytileika. Grjótkrabbinn fannst fyrst við Ísland árið 2006 í Hvalfirði. Fundur grjótkrabbans hér við land er um margt áhugaverður, ekki síst fyrir þá staðreynd að þetta er í fyrsta skipti sem tegundin finnst utan sinna náttúrulegu heimkynna sem liggja meðfram austurströnd Norður-Ameríku, frá Suður-Karólínu til Labrador í norðri. Hér er landnámi grjótkrabbans lýst frá því hann fannst fyrst hér við land og hvernig hann hefur breiðst út til dagsins í dag, en rannsóknir á útbreiðslu og þéttleika hafa farið fram bæði á fullorðnum einstaklingum, sem og lirfum. Samhliða rannsóknum á grjótkrabba hafa fengist mikilvægar grunnupplýsingar um þéttleika tveggja algengustu krabbategundanna á grunnsævi við Ísland, þ.e. bogkrabba (Carcinus maenas) og trjónukrabba (Hyas araneus).
Niðurstöður rannsóknanna sýna að grjótkrabbi er orðinn algengasta krabbategundin á mjúkum botni á grunnsævi við Suðvesturland. Útbreiðsluaukning krabbans hefur verið mjög hröð og þekur samfelld útbreiðsla hans nú um 50% af strandlengjunni, frá Faxaflóa til Vestfjarða, auk þess sem hann finnst á blettum allt norður í Eyjafjörð. Erfðafræðilegur breytileiki grjótkrabbans var skoðaður bæði innan hans náttúrulegu heimkynna í Norður Ameríku og við Ísland en þetta er í fyrsta skipti sem erfðabreytileiki innan tegundarinnar er skoðaður.
Niðurstöður rannsóknanna sýndu fram á að erfðabreytileiki innan Íslands er svipaður og í Norður-Ameríku. Jafnframt kom í ljós að erfðafræðileg aðgreining er meðal stofna sunnan og norðan Nova Scotia í Norður-Ameríku sem líklega má rekja til atburða sem áttu sér stað í kjölfar síðasta jökulskeiðs. Landnám og útbreiðsla grjótkrabbans við Ísland hefur gengið hratt fyrir sig og virðist honum vegna vel við Ísland. Hár erfðabreytileiki, skortur á landnemaáhrifum, hröð útbreiðsla og hár þéttleiki bæði lirfa og fullorðinna einstaklinga benda til að tegundin þrífist vel við Ísland og sé komin til að vera.
Um doktorsefnið
Óskar Sindri Gíslason er fæddur árið 1984 í Reykjavík. Hann lauk BS-gráðu í líffræði á braut fiskifræði árið 2007 og MS-gráðu í sjávarlíffræði árið 2009 frá Háskóla Íslands. Óskar Sindri starfaði sem sérfræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum árin 2010 og 2011. Árið 2012 hóf hann doktorsnám í sjávarlíffræði með áherslu á landnám og uppruna grjótkrabba við Ísland. Samhliða náminu hefur hann sinnt kennslu í sjávar-, vatna- og
fiskavistræði, vistfræði og lífheiminum við Háskóla Íslands og í sjávarvistfræði við Háskólasetur Vestfjarða. Doktorsverkefnið var styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Vaxtarsamningi Suðurnesja.