Gott tímarit máls og menningar

Tímarit máls og menningar er kannski ekki þekkt fyrir margar greinar um líffræðileg efni.

Sumarheftið 2014 var ánægjuleg undantekning, en í því voru fjölmargar greinar helgaðar Guðmundi Páli Ólafssyni heitnum og hugðarefnum hans. Á hugvísindaþingi 2014 var haldin málstofa honum til heiðurs, undir yfirskriftinni lífið er félagsskapur.

“Lífið er félagsskapur – ekki aðeins manna heludr allar lífvera á lifandi jörð.” Svo mælti Guðmundur Páll á umhverfisþingi 2011 og nafni hans Andri Thorsson vitnar til í inngangi heftisins.

Meðal greina sem byggð eru á erindum af málþinginu er athyglisverð hugleiðing Skúla Skúlasonar um að hafa tilfinningu fyrir náttúrunni í vísindunum. Skúli segir m.a. “Með öðrum orðum þá leita vísindin sannleikans, sem er auðvitað einhver mestu verðmæti sem við getum hugsað okkur. Þessi sannleikskrafa vísinda dýpkar enn frekar tilfinningalegt samband vísindamannsins við viðfangsefnið því frá fyrsta degi verður sambandið, samhliða undrun og gleði, að fela í sér traust og áreiðanleika.”

Unnur Birna Karlsdóttir kynnir einnig Guðmund Pál sem málsvara náttúrunnar og Einar Valur Ingólfsson ræðir ljósmyndagáfu hans í fegurðin, sú sjálfstæða höfuðskepna.

Annað efni sem vakti sérstakan áhuga líffræðingsins var ádrepa Áslaugar Helgadóttur, sem hún flutti fyrst á afmæli Vísindafélags íslendinga í desember 2013. Þar spyr hún “hvenær fóru vísindin að skipta fátæka Íslendinga máli?” og “eru vísindin óskeikul”. Hún svarar seinni spurningunni svo: “Vísindaleg þekking er alltaf óvissu háð. Það eitt og sér hvetur til gagnrýni og umburðalyndis”.