Surtsey í sjónmáli

Í vor kom út mjög forvitnileg bók um Surtsey, sem Erling Ólafsson og Lovísa Ásbjörnsdóttir rituðu.

Fjallað var um bókina og hina einstöku náttúru Surtseyjar í Sjónmáli nú í vor.

Bókin verður kynnt 19. nóvember á bókafundi Líffræðifélagsins.

Af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands (báðir höfundar starfa þar).

Það vakti mikla athygli og áhuga vísindamanna um víða veröld þegar Surtsey reis úr sæ árið 1963. Með tilkomu eyjarinnar skapaðist einstakt tækifæri til að fylgjast með myndun og mótun eldfjallaeyjar, baráttu hennar við atlögur sjávar og hvernig ördautt land glæddist lífi. Surtsey var strax friðlýst og eyjan hefur alla tíð hefur verið lokuð fyrir umferð annarra en vísindamanna. Rannsóknir á Surtsey hafa staðið óslitið frá upphafi og hálfrar aldar náttúrusaga hennar er ítarlega skráð í um 600 ritum og fræðigreinum. Þetta gerir Surtsey einstaka og varð til þess að hún var samþykkt á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna árið 2008.

Í bókinni Surtsey í sjónmáli gefst almenningi tækifæri til að skyggnast inn í dulinn heim Surtseyjar og kynnast jarðfræði, framvindu gróðurs, fuglalífi og hvernig samfélag smádýra mótast. Saga eyjarinnar er sögð í máli og myndum sem fæstar hafa áður komið fyrir augu almennings.