Fiskeldi, áhrif af sjókvíaeldi og lausnir Málstofa 3
Á árinu verða haldnar málstofur um fiskeldi í kvíum í sjó og á landi, á vegum NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna, Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands og Líffræðifélags Íslands. Fyrsta málstofan var haldin 17. janúar 2014 og önnur málstofan 14. mars, báðar á Café Sólon.
Mikil umræða á sér nú stað um arðsemi, kosti og galla laxeldis í sjó. Reynsla af fiskeldi í sjó hér við land og erlendis hefur verið misjöfn og full ástæða er til að fara vandlega yfir hina ýmsu þætti eldisins áður en teknar eru ákvarðanir um frekari framkvæmdir á því sviði. Nú er komið fram á Alþingi frumvarp til laga, þingskjal 609 – 319. mál um breytingu á lögum um fiskeldi. Því er nauðsynlegt að efna til umræðna um fjölmarga þætti sem varða fiskeldi, umhverfi, byggðir og vottun afurða áður en afdrifaríkar breytingar verða lögfestar.
Á næstu málstofu munu sérfræðingar gera grein fyrir lagaumhverfi fiskeldis hér á landi frá upphafi og sérstaklega um núgildandi lög og þær breytingar sem nýja frumvarpið felur í sér.
Árni Ísaksson fyrrum forstöðumaður lax- og silungsveiðisviðs Veiðimálastofnunar verður frummælandi.
Höskuldur Steinarsson sem er í stjórn Landsambands Fiskeldisstöðva,
Viktor Guðmundsson formaður Landssambands Stangaveiðifélaga,
Óðinn Sigþórsson formaður félags veiðifélaga og
Sigríður Gísladóttir dýralæknir fisk- og loðdýrasjúkdóma á Matvælastofnun taka einnig til máls.
Einnig eru nokkrir fyrirlesarar óstaðfestir, og búast má við fyrirspurnum eða athugasemdum frá öðrum aðillum. Nægur tími verður gefinn fyrir opnar umræður um málin.
Málstofan fer fram á íslensku og verður haldin á Café Sólon í Reykjavík föstudaginn 4. apríl, 2014, kl. 13:30 – 16:30.
Upplýsingar um fyrstu tvær málstofur, þ.a.m. slæður frummælenda má finna á vef Líffræðifélags Íslands (málstofur um líffræði fiskeldis).
Allir eru velkomnir og beðnir að skrá sig til þátttöku hjá nasf@vortex.is