Á ráðstefnu Líffræðifélags Íslands sem haldin var 8.- 9. nóvember 2013 veitti Líffræðifélag Íslands tveimur íslenskum vísindamönnum heiðursverðlaun. Bergljót Magnadóttir fékk viðurkenningu fyrir farsælan feril og Þórður Óskarsson viðurkenningu fyrir góðan árangur ungs vísindamanns.
Bergljót Magnadóttir hefur verið brautryðjandi á sviði rannsókna er varða ósérhæfða ónæmiskerfið í fiski og þorskur hefur verið hennar megin viðfangsefni. Hún hefur verið afkastamikil fræðimaður og hafa greinar hennar verið áhrifavaldandi á hennar fræðasviði. Bergljót lauk BSc 1968, BSc honor ári síðar og meistaragráðu Msc 1981 frá háskólanum í Belfast, Írlandi. Árið 2000 lauk hún doktorsprófi frá Háskóla Íslands. Bergljót vann stóran hluta sinnar starfsævi á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og tók virkan þátt í að byggja upp rannsóknarstofu í ónæmisfræði fiska. Hún lauk störfum síðastliðið vor. Bergljót kynnti rannsóknir sínar á ráðstefnunni í erindi sem kallaðist Aðallega fiskar í 40 ár.
Þórður Óskarsson, stýrir rannsóknarhóp við Heidelberg institute for stem cell technology and experimental medicine í Þýskalandi. Þórður útskrifaðist með BS gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands 1998. Eftir útskrift hóf hann meistarnám í veirufræði undir leiðsögn Valgerðar Andrésdóttur á Keldum. Þórður lauk doktorsprófi árið 2005 frá Swiss Institute for Experimental Cancer Research (ISREC) undir leiðsögn Dr. Andreas Trump, þar sem hann rannsakaði umritunarþætti í frumum í tengslum við krabbamein. Eftir doktorsnám flutti Þórður til Bandaríkjanna þar sem að hann vann sem nýdoktor undir leiðsögn Dr. Joan Massague at the Memorial Sloan-Kettering Cancer Center (MSKCC) in New York. Þar vann hann að rannsóknum á eðli illkynja krabbameina. Haustið 2011 hóf Þórður núverandi starf. Þórður hefur birt fjölmargar greinar um rannsóknir sínar í virtustu vísindatímaritum á sínu sviði þ.m.t. Nature. Foreldrar Þórðar veittu verðlaununum viðtöku en stefnt er að því að Þórður kynni rannsóknir sínar á dagsráðstefnu félagsins um sameindalíffræði á næsta ári, 2014.
Á myndinni (frá vinstri til hægri) sjást, Snæbjörn Pálsson sem afhenti verðlaunin, Bergljót Magnadóttir, Hanna Þórðardóttir og Óskar Valtýsson (foreldarar Þórðar Óskarssonar). Mynd tók Arnar Pálsson.