Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 0



Aðallega fiskar í 40 ár


Bergljót Magnadóttir

Kynnir: Snæbjörn Pálsson

Fyrstu árin á Keldum snérust störf mín þar aðallega um kindur og þá sérstaklega rannsóknir á garnaveiki en síðan hafa rannsóknirnar aðallega snúist um fisk. Upp úr 1980 fór áhugi á fiskeldi vaxandi í landinu og stofnuð var sérstök Fisksjúkdómadeild að Keldum en fyrsti forstöðumaður deildarinnar var Sigurður Helgason, fisksjúkdómafræðingur. Fiskeldi fylgja gjarnan sjúkdómsvandamál og þróun virkra bólefna skiptir höfuðmáli fyrir eldið. Laxinn var aðal viðfangsefnið í byrjun og ónæmisviðbrögð við sýkingum og bólusetningum voru könnuð með hjálp prófefna sem útbúin voru á Keldum. Í ljós kom að ónæmiskerfi laxins brást við svipað og ónæmiskerfi spendýra. Það var jákvæð fylgni á milli móefnasvars og árangurs bólusetningar og bóluefni gegn algengum sjúkdómum í eldi gáfu góða raun. Upp úr 1990 kom fram áhugi á þorskeldi og Hafró stofnaði tilraunastöð með þorskeldi á Stað v. Grindavík. Það gerði allt aðgengi að þorski auðveldari og rannsóknir, hliðstæðar þeim sem höfðu farið fram á laxi, hófust á Keldum. Í ljós kom að ónæmisviðbragð þorsks var gjörólíkt ónæmissvari lax. Þorskurinn sýndi lélegt mótefnasvar og bóluefni gáfu misgóðan árangur. Frekari rannsóknir bentu til þess að einhver galli væri í ónæmiskerfi þorsks borið saman við aðra eldis fiska. Þrátt fyrir þetta er villtur þorskur ekki sérstaklega næmur fyrir sýkingum. Rannsóknir okkar hafa sýnt að hann hefur öfluga meðfædda ónæmisþætti sem vega á móti lélegu mótefnasvari. Árið 2011 voru birtar niðurstöður úr rannsóknum á genamengi þorsks sem sýndu að þorskurinn hefur í gegnum þróunarsöguna misst vefjaflokkasameindina MHC af flokki II og CD4+ T-hjálparfrumur sem eru lykilþættir í mótefnasvari kjálkadýra, allt frá fiskum og til spendýra.