Ályktun stjórnar Líffræðifélags Íslands vegna samkeppnissjóða

Til hæstvirts mennta og menningarmálaráðherra

Reykjavík 15. nóvember 2013

Kæri Illugi Gunnarson

Erindi: Ályktun stjórnar Líffræðifélags Íslands vegna samkeppnissjóða.

Stjórn Líffræðifélags Íslands leggst harðlega gegn niðurskurði á samkeppnissjóðum Rannís, sem lagður er til í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.

Það er almennt viðurkennt að fjárfesting í grunnrannsóknum og tækniþróun með samkeppnissjóðum er góð leið til þekkingar- og verðmætasköpunar. Þessi staðreynd er undirstrikuð í skýrslunni „Ný sýn“ sem kom út árið 2012 og unnin var af Forsætisráðuneytinu, í samráði við Vísinda- og tækniráð og fleiri aðila.

Eins og kemur fram í skýrslunni er umgjörð íslenskra vísinda sérkennileg að mörgu leyti. Veigamest er sú staðreynd að hérlendis fer lágt hlutfall (20%) fjárframlags ríkisins til rannsókna í gegnum samkeppnissjóði, en erlendis er hlutfallið almenn hærra (40%). Heildarniðurskurður til samkeppnissjóða undanfarin 5 ár er 20-40% (eftir sjóðum), sem er meiri en niðurskurður í útgjöldum ríkisins í heild á sama tímabili. Eina undantekningin er árið 2013, þar sem fjárveitingin náði aftur sömu upphæð og 2008 (að raunvirði).

Stjórn Líffræðifélags Íslands leggst harðlega gegn fyrirhugaðri skerðingu á samkeppnissjóðum Rannís um allt að 30% í fjárlögum fyrir 2014 og þeim niðurskurði sem áætlaður er á næstu 2 árum. Það skýtur skökku við að svelta samkeppnissjóði sem standa undir vísinda og tækniþróun hjá þjóð sem hefur hvað mest þörf fyrir nýsköpun, jafnt í klassískum atvinnugreinum eins og fiskveiðum og orkuvinnslu, sem og sprotafyrirtækjum á sviði tölvu- og líftækni.

Ísland hefur alla burði til þess að standa í fararbroddi þegar kemur að þekkingarsköpun í formi tækni- og tölvuþekkingar og ekki síður formi rannsókna á náttúru Íslands og auðlindum. Við verðum að standa vörð um þessa þekkingu.

Fyrirhuguð skerðing á samkeppnissjóðum Rannís mun leiða til þess að ungt fólk mun hrökklast úr námi eða sækja sér menntun erlendis. Alvarlegra er að skerðingin mun fæla íslendinga sem náð hafa í verðmæta sérmenntun ytra frá því að snúa heim. Niðurstaðan verður íslenskur heilaleki með ófyrirséðum afleiðingum.

Þar af leiðir er líklegt að fyrirhuguð skerðing á samkeppnissjóðum Rannís verði minnst sem mikils ógæfuspors í bataferli þjóðar eftir efnahagshrun.

Við höfum alvarlegar áhyggjur vegna þessara fyrirætlana og hvetjum menntamálaráðherra, ríkisstjórn og Alþingi til þess að endurskoða fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp, sérstaklega m.t.t. fyrirhugaðs niðurskurðar á samkeppnissjóðum Rannís.

Virðingarfyllst,

stjórn Líffræðifélags Íslands,

Arnar Pálsson,

Guðmundur Árni Þórisson,

Hrönn Egilsdóttir,

Lovísa Ólöf Guðmundsdóttir og

Snorri Páll Davíðsson.

Afrit sent fjárlaganefnd og fjölmiðlum.