Ályktun stjórnar Líffræðifélags Íslands um meðferð stjórnvalda á umhverfismálum 2013

Til hæstvirts umhverfis- og auðlindaráðherra

Reykjavík 15. nóvember 2013.

Kæri Sigurður Ingi Jóhannsson.

Erindi: Ályktun stjórnar Líffræðifélags Íslands um meðferð stjórnvalda á umhverfismálum 2013.

Stjórn Líffræðifélags Íslands hvetur stjórnvöld og Alþingi til að standa vörð um náttúru landsins. Við leggjum sérstaka áherslu á nokkur atriði á sviði umhverfismála.

Í fyrsta lagi er mikilvægt að stækkun friðlands við Þjórsárver sé tryggð, og þá sérstaklega að fallið verði frá áformum um Norðlingaölduveitu. Það væru skelfileg mistök að raska náttúru þessa einstaka svæðis.

Í öðru lagi er brýnt að staðfesta Rammaáætlun eins og hún var afgreidd á Alþingi vorið 2013. Rammaáætlun var unnin í vönduðu og faglegu ferli sem tók tillit til sjónarmiða náttúruverndar, nýtingar, efnahags, menningar og sögu landsins. Það væri bæði kostnaðarsamt og misráðið að varpa þeirri vönduðu vinnu fyrir róða vegna illa ígrundaðra pólitískra sjónarmiða.

Í þriðja lagi er nauðsynlegt að Náttúruverndarlögin, eins og þau voru samþykkt 2012, taki gildi óbreytt. Teljum við rökstuðning ráðherra fyrir afturköllun laganna ekki byggða á faglegum forsendum né í samhengi við þær athugasemdir sem bárust frá hagsmunaaðillum á þeim tíma sem Alþingi hafði lögin til umræðu.

Í fjórða lagi er mikilvægt að ráðuneyti Umhverfismála fái sér ráðherra, sem getur sinnt málaflokknum af heilum hug en ekki í hjáverkum. Það er sérlega óheppilegt að sami ráðherra eigi að fara með málefni auðlindanýtingar og umhverfismála, og vera því í þeirri að stöðu að þurfa sitja beggja vegna borðsins.

Afrit sent umhverfis- og samgöngunefnd og fjölmiðlum.

Virðingarfyllst,

stjórn Líffræðifélags Íslands,

Arnar Pálsson,

Guðmundur Árni Þórisson,

Hrönn Egilsdóttir,

Lovísa Ólöf Guðmundsdóttir og

Snorri Páll Davíðsson.