Agnar Ingólfsson kvaddur

Agnar Ingólfsson fyrsti formaður Líffræðifélags Íslands lést 10. október. Arnþór Garðarsson, samstarfsmaður Agnars og félagi, minntist hans í upphafi Líffræðiráðstefnunar.

Eftirfarandi tilkynning barst að morgni þess 29. október 2013 frá Kristínu Ingólfsdóttur rektor Háskóla Íslands.

————–

Agnar Ingólfsson, prófessor emeritus, lést 10. október sl. 76 ára að aldri.

Agnar fæddist í Reykjavík 29. júlí 1937. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1957 og B.Sc. (Hons.)-prófi frá Aberdeen háskóla í Skotlandi árið 1961. Agnar lauk doktorsprófi (Ph.D.) frá háskólanum í Michigan, Ann Arbor, Bandaríkjunum árið 1967.

Agnar Ingólfsson var lektor í líffræði við Southeastern Massachusetts háskólann, North Dartmouth, Massachusetts, 1967-1970. Hann var dósent í dýrafræði við Háskóla Íslands 1970-1973 og skipaður prófessor í vistfræði árið 1973 og gegndi hann því starfi til ársins 2007.

Rannsóknaferill Agnars var langur og farsæll. Lokaverkefni hans við Aberdeen háskóla fjallaði um íslenska örninn og doktorsverkefnið við Ann Arbor um vistfræði máva. Í ljós kom að tvær mávategundir, hvítmávur og silfurmávur, blönduðust hér á landi og rannsóknir Agnars leiddu af sér merka nýjung á sviði þróunarfræði. Eftir að Agnar hóf störf við Háskóla Íslands beindist áhugi hans fljótlega að sjávarlíffræði, einkum vistfræði fjöru og grunnsævis, og lauk hann þar undirstöðuverki sem birtist sem eitt bindi af safnritinu Zoology of Iceland. Þetta starf leiddi jafnframt til víðtækrar samanburðarrannsóknar á klettafjörum við norðanvert Norður-Atlantshaf, Kyrrahaf og í Suðurhöfum. Um leið gerðist Agnar brautryðjandi í að skýra uppruna fjörulífs í austanverðri Norður-Ameríku og markaði sér þar með sess í líflandafræði.

Agnar afkastaði mörgum ritverkum sem birtust á alþjóðavettvangi og var vel þekktur meðal vísindamanna á sínu sviði. Hér innanlands fékkst hann einkum við rannsóknir meðfram ströndinni og lausn vandamála sem tengdust ráðstöfun strandlengjunnar, til dæmis vegna vegagerðar. Þannig aflaði hann mikils fræðilegs efnis en hann birti einnig nokkur alþýðleg rit um fjörulíf.

Agnar Ingólfsson sinnti kennslu og rannsóknum af mikilli elju þrátt fyrir heilsubrest. Hann hafði einlægan félagslegan áhuga á fræðunum og á umhverfisvernd. Hann beitti sér fyrir stofnun Líffræðifélags Íslands og var fyrsti formaður þess, 1979-1983.

Fyrir hönd Háskóla Íslands þakka ég farsæl störf Agnars Ingólfssonar í þágu skólans og votta aðstandendum hans innilega samúð.

Með bestu kveðju,
Kristín Ingólfsdóttir