Bréf vegna Náttúruminjasafns í Perlunni

Stjórn Líffræðifélags Íslands skrifaði bréf ásamt nokkrum öðrum félaga og fræðisamtökum, til Mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssonar.

Erindið tengist Náttúruminjasafni  í Perlunni, og er hér prentað í heild sinni.

Undirrituð samtök hvetja menntamálaráðherra eindregið til að þess að sýna djörfung og þor við uppbyggingu Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni. Náttúruminjasafn Íslands er lögum samkvæmt eitt þriggja höfuðsafna þjóðarinnar og á að gegna lykilhlutverki í kynningu og fræðslu um náttúru Íslands. Safnið hefur verið á hrakhólum og búið við óviðunandi aðstæður svo áratugum skiptir. Náttúruminjasafn í Perlunni veitir ótal tækifæri og mat fagaðila, m.a.
Framkvæmdasýslu ríkisins, bendir til að aðgangseyrir muni standa undir leiguverðinu (80 milljónir á ári fyrir 3.200 m2, og gott betur). Jafnframt yrði safnið mikilvægur þáttur í uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Veglegt höfuðsafn í náttúrufræðum er stolt hverrar velstæðrar þjóðar og dýrmætur fróðleiksbrunnur fyrir þegna og gesti viðkomandi lands. Í ljósi þess að Íslendingar byggja atvinnu sína og líf á náttúru landsins í mjög ríkum mæli, auk þess sem langflestir erlendir  ferðamenn sækja landið heim vegna náttúrunnar, skiptir öllu máli að bjóða upp á vandað höfuðsafn um náttúru landsins sem vel er í sveit sett og sómi er að. Samtökin minna á að Náttúruminjasafn Íslands hefur mikla þýðingu fyrir upplýsingamiðlun og fræðslu gagnvart öllum skólastigum landsins og almenningi. Slík fræðsla er óformleg í þeim skilningi að hún er ekki beint innan skólakerfisins og í því liggur styrkur hennar.

Félag náttúrufræðikennara á grunnskólastigi, Sigurður Halldór Jesson
Félag raungreinakennara – Valgerður Þ.E. Guðjónsdóttir
Fuglavernd, Jóhann Óli Hilmarsson
Hið íslenska náttúrufræðifélag, Árni Hjartarson
Jarðfræðafélag Íslands, Sigurlaug María Hreinsdóttir
Landvernd, Guðmundur Hörður Guðmundsson
Líffræðifélag Íslands, Arnar Pálsson
Náttúruverndarsamtök Íslands, Árni Finnsson
Samlíf – Samtök líffræðikennara, Ester Ýr Jónsdóttir