Ísland – suðupottur fuglaflensu, þriðjudaginn 5. maí í Háskóla Íslands

Vísindi á mannamáli

Ísland – suðupottur fuglaflensu

Gunnar Þór Hallgrímsson, dósent í dýrafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands,
fjallar um rannsóknir á veirum í farfuglum sem koma hingað til lands í sjötta erindi fyrirlestraraðarinnar
Vísindi á mannamáli í Háskóla Íslands. Gunnar Þór hefur stundað rannsóknir sínar
undanfarin ár og hafa niðurstöður þeirra vakið athygli víða um heim.
Erindið verður haldið í Hátíðasal Háskóla Íslands
þriðjudaginn 5. maí nk. kl. 12.10.

Í kjölfar faraldurs fuglaflensu af stofni H5N1 fyrir nokkrum árum hefur mikil umræða átt sér stað
um flensu í fuglum um allan heim. Helstu áhyggjur manna snúa að þeirri hættu sem alifuglum stafar af fuglaflensu
og mögulegum áhrifum þess á menn ef banvænar veirur breyta sér og smitast á milli manna.

Í erindinu fjallar Gunnar Þór um rannsóknir sínar og samstarfsfélaga sem á síðustu árum hafa skoðað tíðni og gerðir fuglaflensuveira í fuglum á Íslandi. Í fuglunum fundust margar gerðir veira sem eiga uppruna bæði í Evrópu og Ameríku. Rannsóknirnar leiddu meðal annars í ljós að Ísland er einskonar suðupottur fyrir fuglaflensu frá mismunandi heimssvæðum þar sem þær blandast og mynda nýjar veirur.

Af þessu leiðir að Ísland getur virkað eins og stökkpallur fyrir fuglaflensu á milli Evrasíu og Ameríku. Í rannsóknunum fundust m.a. vægar gerðir af H5N1 (í vaðfugli) og H5N2 (í máfi) fuglaflensuveirum. Í erindinu verður sagt frá því hvaða fuglategundir eru líklegastar til að flytja fuglaflensuveirur til og frá Íslandi og rýnt í lífshætti og farmynstur fuglanna. Einnig verður rætt um hvaða áhrif flensa hefur á villta fugla og hvaða veirum mönnum kann að stafa ógn af.

Um fyrirlestraröðina
Vísindi á mannamáli er fyrirlestraröð Háskóla Íslands sem hófst haustið 2014 að frumkvæði Lífvísindaseturs og Líffræðistofu Háskóla Íslands. Markmiðið er að varpa ljósi á það hvernig vísindamenn háskólans reyna að afhjúpa leyndardóma náttúrunnar og hvaða þýðingu vísindarannsóknir hafa fyrir daglegt líf fólks og atvinnulíf í landinu.

Nánari upplýsingar má finna á:
www.hi.is/visindi_a_mannamali