Eldri fréttabréf

Líffræðifélag Íslands gaf út fréttabréf árin 1999 og aftur 2003 og 2004. Þetta voru stutt bréf, sem auglýstu fyrirlestra, ráðstefnur, málstofur og bækur. Fréttabréf líffræðifélagsins eru flest aðgengileg hér á síðunni.

Einnig var fjallað um námskeið á vegum félagsins og auðvitað haustfagnaðinn. Ritstjóri skrifaði iðullega vangaveltur um lífið og fræðin, oft í samhengi við mál í deiglunni. Ólafur Patrick Olafsson skrifaði t.d. um Kyoto sáttmálann (Fréttabréf 3.tbl. febrúar 1999):

Nú á ég eftir að fá það óþvegið, en samt sem áður …
Þau ummæli stjórnvalda að Íslendingar séu sjálfum sér samkvæmir með því að undirrita ekki Kyoto sáttmálann er vafalaust rétt – bara ekki á þann hátt sem þau halda.  Íslenzk stjórnvöld eru sjálfum sér samkvæm, þar sem þau hafa á undanförnum árum ítrekað sýnt umhverfinu og umhverfisvernd mikið virðingaleysi (að fela sama ráðherra umsjón landbúnaðar- og umhverfismála var strax ills viti).  Ítrekað er horft til stundargróða í stað langtímahagsmuna og höfðað til “sérstöðu Íslands” – þeirrar gamalreyndu afsökunar.  Ekki er hins vegar lengur unnt að taka tillit til “sérstöðu” þegar hætta er á vistfræðislysi á heimsvísu.  Umhverfismál teljast ekki lengur einkamál einstakra ríkja.