1. gr.
Félagið heitir Líffræðifélag Íslands. Heimili þess og varnarþing eru í Reykjavík.
2.gr.
Tilgangur félagsins er að efla þekkingu á líffræði, að auðvelda samband og skoðanaskipti milli félaga sinna og að auðvelda tengsl þeirra við erlenda aðila með svipuð áhugamál.
3. gr.
Félagar geta orðið allir þeir sem áhuga hafa á líffræði og vilja stuðla að framgangi hennar.
4. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð að lágmarki fimm og allt að sjö mönnum. Kjörtímabilið er tvö ár og skulu stjórnarmenn vera kosnir á aðalfundi félagsins. Annað árið skal kjósa formann og einn til þrjá meðstjórnendur. Hitt árið skal kjósa gjaldkera og einn til þrjá meðstjórnendur.
5. gr.
Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok nóvember ár hvert og skal boðaður í tölvupósti sem sendur er á póstlista félagsmanna með tveggja vikna fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
- Skýrsla stjórnar
- Lagðir fram skoðaðir reikningar félagsins
- Lagabreytingar
- Kosning stjórnar og skoðunarmann reikninga
- Önnur mál
Lögum félagsins má einungis breyta á aðalfundi og þarf til þess einfaldan meirihluta fundarmanna. Tillögur til lagabreytinga skulu fylgja fundarboði.
6. gr.
Verði félaginu slitið skulu eignir þess renna í Minningarsjóð Aðalsteins Kristjánssonar til eflingar náttúruvísindum og efnafræði.
7. gr.
Félagar greiða félagsgjald við nýskráningu á vefsíðu félagsins. Teljast þeir þá tímabundið virkir félagar í Líffræðifélagi Íslands. Þegar gildistíma lýkur er hægt að endurnýja eða endurvirkja félagsaðild eftir þörfum. Upphæð félagsgjalda og gildistími aðildar skal ákvörðuð af aðalfundi. Önnur útfærsluatriði skulu ákveðin af stjórn.
8. gr.
Félagið starfrækir styrktarsjóð. Styrkjum er úthlutað árlega og er markhópurinn nemendur í líffræði og skyldum greinum við íslenska háskóla. Sjóðurinn er fjármagnaður af Líffræðifélagi Íslands og með mótframlögum. Fjöldi og upphæð styrkja skal ákveðin af stjórn og fer eftir fjárhagsstöðu félagsins hverju sinni. Úthlutunarreglur og breytingar á þeim skulu ákveðin af stjórn og kynntar félagsmönnum.
Samþykkt á aðalfundi félagsins 16. nóv 2018.
Breytingar á 4. gr og 6. gr samþykktar á aðalfundi 27. jan 2023.
Viðbætur 7. gr og 8. gr samþykktar á aðalfundi 2. nóv 2024.