Andlátsfregn

Sigríður H. Þorbjarnardóttir, sérfræðingur við Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands, lést 15. nóvember sl., 67 ára að aldri.

Sigríður fæddist á Grenivík 13. maí 1948. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1969 og innritaðist í BS-nám í líffræði sem þá var nýhafið við Háskóla Íslands. Þaðan útskrifaðist Sigríður 1973 og lauk síðan M.Sc.-prófi í örverufræði frá Háskólanum í Warwick í Englandi árið 1976. Sama ár tók hún til starfa hjá Guðmundi Eggertssyni prófessor sem þá hafði rannsóknaaðstöðu við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Skömmu síðar var Sigríður ráðin sérfræðingur við Líffræðistofnun Háskólans. Hún vann að eigin rannsóknum í húsnæði Háskólans að Grensásvegi 12 um leið og hún átti áfram farsælt samstarf við Guðmund Eggertsson, ekki einungis um rannsóknir heldur einnig við kennslu nær allra líffræðinema sem útskrifast hafa undanfarin fjörutíu ár. Fjölmargir nemendur nutu einnig leiðbeiningar Sigríðar við rannsóknarverkefni, stór og smá.

Rannsóknir Sigríðar voru einkum á sviði erfðafræði bakteríunnar E. coli, og síðan á hitakærum bakteríum, en frá 1999 átti hún einnig samstarf við Magnús Má Kristjánsson prófessor og nemendur hans um rannsóknir á kuldavirkum ensímum.

Sigríður sat í stjórn Líffræðistofnunar Háskólans í fjölmörg ár. Auk þess starfaði hún um árabil fyrir umhverfisráðuneytið í ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur.

Sigríður hafði yndi af ferðalögum um Ísland og tók virkan þátt í starfi Ferðafélags Íslands, sat m.a. í stjórn félagsins árin 1992-2001.