FornDNA rannsóknir á íslenskum húsdýrum – fyrstu niðurstöður – 15. apríl

Félag fornleifafræðinga og námsbraut í fornleifafræði við Háskóla Íslands standa fyrir fyrirlestraröð nú á vormisseri í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands. Þema fyrirlestraraðarinnar er Nýjar rannsóknir í íslenskri fornleifafræði.

Næsti fyrirlestur verður haldinn á morgun, miðvikudaginn 15. mars, kl. 12.05 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Nánar um fyrirlesturinn

FornDNA rannsóknir á íslenskum húsdýrum – fyrstu niðurstöður Albína Hulda Pálsdóttir og Dr. Jón Hallsteinn Hallsson, Landbúnaðarháskóla Íslands

Kynntar verða fyrstu niðurstöður úr fornDNA greiningum á hestabeinum úr íslenskum kumlum og úr hundabeinum úr fornleifarannsókninni á Alþingisreit. Verkefnið fléttar saman greiningum á nútíma erfðaefni íslenska hestsins og hundsins, hefðbundinni dýrabeinafornleifafræði og greiningu á erfðaefni dýrabeina úr fornleifauppgröftum. Mikil framþróun hefur orðið í þeirri tækni sem notuð er til fornDNA greininga undanfarin ár og þekking á erfðum íslenskra búfjárstofna hefur einnig aukist. Fornleifafræðingar eru farnir að nýta sér fornDNA greiningar til að skoða flutninga fólks og dýra milli svæða og landa með nákvæmari hætti en hefðbundin fornleifafræði og dýrabeinafornleifafræði leyfa. Þegar liggja fyrir nokkuð ítarlegar DNA rannsóknir á íslenska hrossastofninum eins og hann er samansettur í dag en ekki hefur áður verið framkvæmd fornDNA greining á hestabeinum úr íslenskum fornleifauppgröftum. Markmiðið er að dýpka skilning okkar á uppruna íslenska hestsins og hundsins og þróun stofnanna frá innflutningi á landnámsöld til dagsins í dag. Að auki geta niðurstöðurnar varpað nýju ljósi á samspil manna og dýra á landnámsöld.