Vinnumatið ógurlega – grein Sigurkarls á vísir.is

Sigurkarl Stefánsson skrifaði grein um nýtt fyrirkomulag á vinnumati framhaldskólakennara á vísir.is (Vinnumatið ógurlega). Þar segir hann m.a.

Fyrir liggur atkvæðagreiðsla um nýtt vinnumat kennara samhliða launahækkunum. Að sumu leyti eru áherslur matskerfisins góðar, til að mynda er jákvæð hugmynd að umbuna frekar kennurum sem þurfa að búa við afar stóra nemendahópa.

Önnur útfærsla kerfisins er hinsvegar flókin og ógegnsæ, og krefst flókinna útreikninga til að fá út laun hvers kennara, og óljóst er hvort skólum er ætluð aukin fjárveiting til þessara útreikninga.

Í öðru lagi er í vinnumatinu ákvæði sem nefnt er ,,Önnur vinna óháð nemendafjölda: Vinna vegna stofuuppsetningar, tækjavörslu, efnisöflunar eða skyldra atriða. Aðrar ástæður gætu t.d. verið vegna sérstakra námsefniskrafna í áfanga.” Hér gæti manni virst sem átt sé við verklega kennslu, eins og t.a.m. í raungreinum, enda ekki minnst á verklegu kennsluna annarstaðar í vinnumatinu. Undir þessum lið eru áætlaðar 4 klst. / á önn í félagsgreinum og erlendum tungumálum, og 5-7 klst. í íslensku.

En í raungreinum eru áætlaðar 0 klst.? Á nær 30 ára kennsluferli sem líffræðikennari hef ég nýtt allmargar klukkustundir til að afla efniviðar fyrir verklegar æfingar, sótt þang í fjöru, smádýr í tjarnir, fundið staði þar sem gott væri að skoða fugla, stillt upp tækjum, séð um viðhald þeirra, gengið frá eftir verklegar æfingar og sótthreinsað verkfæri svo nokkur dæmi séu nefnd. Orðalagið í ákvæðinu hljómar eins og það eigi hvað helst við raungreinakennslu, en útkoman er sérkennileg.

Þetta eru ansi undarlegar tillögur. Ég veit ekki hvað er hægt að kenna í líffræði, ef enginn tími er til að afla fanga og undirbúa fyrir verklega tíma.