Það er sérlega ánægjulegt að tilkynna að Ráðgáta lífsins eftir Guðmund Eggertsson er komin út hjá Bjarti.
Úr tilkynningu bókafélagsins.
http://www.bjartur.is/baekur/radgata-lifsins/
Lífið á jörðinni á sér langa sögu en uppruni þess er enn mikil ráðgáta. Stóraukin þekking á innri gerð og starfsemi lífvera hefur ekki megnað að auka skilning á uppruna þeirra. Margvíslegar tilgátur um uppruna lífs hafa verið settar fram en um enga þeirra er einhugur. Jafnframt hefur reynst torvelt að svara spurningunni um eðli lífsins á sannfærandi hátt. Enn síður er til vísindaleg skýring á því að til skuli vera lífverur sem geta spurt spurninga um tilveru sína og uppruna.
Í þessari bók segir annars vegar frá upphafi sameindalíffræðinnar og merkum uppgötvunum sem lögðu grundvöllinn að nútímalíffræði. Hins vegar er fjallað um uppruna lífs og helstu tilraunir til að gera grein fyrir honum. Loks beinist umræðan að eðli lífsins og að meðvituðu lífi.
Dr. Guðmundur Eggertsson var um árabil prófessor í líffræði við Háskóla Íslands og vann að rannsóknum á sviði sameindaerfðafræði. Fjöldi greina eftir Guðmund hafa birst í íslenskum og erlendum tímaritum.
Útgáfuteiti er í kortunum, en hefur ekki verið fastsett. Félagsmönnum verða sendar nánari upplýsingar þegar þær berast.
Hanna G. Sigurðardóttir ræddi við Guðmund Eggertsson í Samfélaginu í nærmynd 10. september 2014.Hvernig kviknaði lífið ?
Á vef RÚV segir:
Hvernig gerðist það að lífvana efni jarðarinnar þróaðist í það sem við köllum líf ? Og hvernig er hægt að skilgreina líf út frá efnasamsetningu og ferlum ? Þessar stóru spuringar eru meðal þeirra sem sameindalíffræðingar glíma við.
Í bókinni Ráðgáta lífsins eftir Guðmund Eggertsson erfðafræðing er gerð grein fyrir kenningum ýmissa fræðimanna sem komið hafa fram um lausn þessarar gátu, en við henni hafa enn ekki komið fram svör sem sátt ríkir um. Meðal hugmynda er meðal annars tilgáta um að elding hafi verið hvatinn sem gerði að verkum að ólífrænt efni breyttist í líf. Samkvæmt annarri er reiknað með að lífrænt efni hafi borist til jarðar utan úr geimnum.