Doktorsvörn: Aðgreining vistgerða þorsks við Ísland 3. sept. 2015

Dagsetning:
Thursday, September 3, 2015 – 13:00
Vefslóð:
http://www.hi.is/vidburdir/doktorsvorn_i_liffraedi_hlynur_bardarsson
Staðsetning:
Aðalbygging
Nánari staðsetning:
Hátíðarsalur

Fimmtudaginn 3. september ver Hlynur Bárðarson doktorsritgerð sína í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Aðgreining vistgerða þorsks við Ísland (Identifying cod ecotypes in Icelandic waters).

Andmælendur eru dr. Jonathan Grabowski, dósent við Marine and Environmental Sciences, Northeastern University, Bandaríkjunum, og dr. Hilmar Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.

Leiðbeinandi var dr. Guðrún Marteinsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Auk hennar sátu í doktorsnefnd dr. Christophe Pampoulie, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun, og dr. Bruce J. McAdam, lektor við Institute of Aquaculture, University of Stirling, Bretlandi.

Dr. Eva Benediktsdóttir, dósent og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.

Ágrip af rannsókn

Rannsóknir á þorski (Gadus morhua) í Atlantshafi benda til þess að uppbygging stofna sé mun flóknari en áður hefur verið talið. Íslenski þorskstofninn er byggður upp af mörgum hrygningarhópum og erfðafræðilega mismunandi vistgerðum (e. ecotypes) sem sýna mismunandi farhegðun, ástand og vöxt sem leiðir til munar í kynþroskaaldri og áhrif af veiðum geta hugsanlega leitt til ólíks veiðiálags milli hópa. Það getur haft alvarlegar afleiðingar að leiða hjá sér og taka ekki tillit til slíks stofnbreytileika. Það gæti leitt til fækkunar á hrygningarhópum, að smærri og viðgangsminni hópar hverfi, að erfðabreytileiki minnki og gæti einnig endað með ofveiðum. Af þessum sökum er mikilvægt fyrir fiskveiðistjórnun að innleiða aðferð til að greina á milli hópa sem er í senn auðveld, nákvæm og ódýr í notkun.

Markmiðið með þessu doktorsverkefni var að athuga hvort hægt væri að nýta útlit kvarna til slíkrar aðgreiningar á vistgerðum íslenska þorskstofnsins. Þetta var gert með því að hanna aðferðina með kvörnum úr gagnamerktum (e. Data Storage Tagged) þorskum sem, þar til nú, eru einu þorskarnir sem er hægt að greina til vistgerða. Aðferðin var einnig sannreynd með því að kanna samband milli kvarnaútlits og Pantophysin-erfðamarksins sem finnst í mismunandi tíðni milli vistgerða.

Niðurstöðurnar voru jákvæðar og aðferðin árangursrík í aðgreiningu vistgerða. Við mælum með að greining á kvarnaútliti sé þar með hagnýtt af vísindamönnum við greiningar á íslenska þorskstofninum. Í þessu verkefni var einnig sýnt fram á að brotnar kvarnir geta verið nýttar til rannsókna á aðgreiningu stofna með því að líma þær saman aftur.

Um doktorsefnið

Hlynur Bárðarson fæddist 1982 og ólst upp á Selfossi. Hann er yngstur af fimm systkinum, á þrjá bræður og eina systur. Hlynur er kvæntur Helgu Ýr Erlingsdóttur og eiga þau tvær dætur, Kristínu Eddu 4 ára og Margréti Unu 1 árs. Hann lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut og eðlisfræðibraut frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi 2002 og B.Sc. gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands 2006 og M.Sc. gráðu í umhverfis- og auðlindafræði frá sama skóla 2009.