Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025

Erindi/veggspjald / Talk/poster V93

Hlutverk Pontin og Reptin í viðhaldi hreinsunarferla í taugafrumum

Höfundar / Authors: Klaudia Brzozowska, Isabelle Kristín Tarbox, Zophonías O. Jónsson, Sigríður Rut Franzdóttir og Theodóra Björk Ægisdóttir

Starfsvettvangur / Affiliations: Háskóli Íslands

Kynnir / Presenter: Klaudia Brzozowska eða Theodóra Björk Ægisdóttir

Pontin og Reptin eru vel varðveitt prótein af fjölskyldu ATPasa sem taka þátt í fjölmörgum frumuferlum í heilkjörnungum, þar á meðal umritunarstjórnun, DNA-viðgerðum og litnisumbreytingum. Nýlegar rannsóknir benda til þess að próteinin tengist upphreinsunarferlum í taugafrumum og gætu haft áhrif á niðurbrot próteina með ubiquitin–próteasómakerfinu sem er sérstaklega mikilvægt í vernd gegn taugahrörnun. Í þessari rannsókn var Drosophila melanogaster notuð sem líkan. Próteasómvirkni í sjóntaugafrumum augans var skert með tjáningu hitanæmrar próteasómeiningar, DTS7, undir stjórn GMR-Gal4 stjórnþáttar og samtímis var Pontin og Reptin annað hvort bælt eða yfirtjáð í augum fluganna til að kanna hvort próteinin hefðu áhrif á virkjun annarra niðurbrotsferla við skerta starfssemi próteasóms. Viðmiðunarhópar voru unnir með sama kerfi. Bæling Pontin og Reptin leiddi til mun meiri röskunar á augnsvipgerð en hjá viðmunarhópum. Þó svo að yfirtjáning hafi ekki bjargað taugahrörnunarsvipgerð DTS7, olli hún breytingum á svipgerð. Niðurstöður styðja að Pontin og Reptin séu hluti af gæðaeftirlitskerfi fruma með hlutverk í viðhaldi próteinstöðugleika og nauðsynleg fyrir viðbragð við skertri próteasómstarfsemi.