Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025

Erindi/veggspjald / Talk/poster V46

Mikilvægi ATL2 gensins í ferlum sem geta stutt æxlisþróun í brjóstum

Höfundar / Authors: Lilja Xuying Chen Hansdóttir (1,2), Nataliya Shabatura (1,2), Gunnhildur Ásta Traustadóttir (1,2), Bylgja Hilmarsdóttir (1,2), Inga Reynisdóttir (1)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Meinafræðideild Landspítala, 2. Læknadeild Háskóla Íslands

Kynnir / Presenter: Lilja Xuying Chen Hansdóttir

Atlastin 2 (ATL2) er himnubundið prótein sem tekur þátt í myndun þrítengimóta frymisnetsins. Systurgenin ATL1-3 eru öll mikilvæg fyrir heilbrigði frymisnetsins og greinóttrar formgerðar þess. Fyrri rannsóknir okkar sýndu að eitt umrita ATL2 gensins, ATL2-2, er meira tjáð í brjóstakrabbameinsfrumum en heilbrigðum brjóstafrumum. Einnig sýndi hærri tjáning umritsins fylgni við verri horfur sjúklinga með estrógen jákvæð (ER+) brjóstaæxli og við gen í boðferlum sem eru nauðsynleg vexti og ferð frumunnar í gegnum G2/M hlið frumuhringsins. Markmið verkefnisins er að kanna tjáningu ATL2-2 umritsins í frumuhringnum og einnig áhrif aukinnar tjáningar umritsins á skrið og íferð ER+ brjóstakrabbameinsfrumna. Frumulínan T47D er ER+ og tjáir ATL2 og 3, en ekki ATL1. Hún var notuð til að búa til frumulínu sem yfirtjáir ATL2-2 undir stjórn doxycycline (ATL2-2dox). Magn og tjáning umrita og proteina var kannað í wt T47D og ATL2-2dox. Frumur voru stöðvaðar í metafasa með Paclitaxel (pac). Bestu skilyrði fyrir ræktun wt T47D frumna í pac, þ.e. magn og tími, voru fundin. Of langur tími og magn drepa frumurnar í stað þess að stöðva þær. T47D klónar sem yfirtjáðu ATL2-2 í 0 – 80% frumum voru einangraðir (ATL2-2dox). Næstu skref verða að mæla magn ATL2 umrita og proteina í wt T47D eftir meðhöndlun með pac ásamt því að finna kjörstyrk dox og tímalengd í T47D klónum til að yfirtjá ATL2-2 án þess að fella frymisnetið saman. Í kjölfarið verða gerðar tilraunir með skrið og íferð í ATL2-2dox.