Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025
Erindi/veggspjald / Talk/poster V44
Höfundar / Authors: Weronika Klaudia Wróbel (1), Rakel Ragnheiður Jónsdóttir (2), Sigurður Rúnar Guðmundsson (3), Gunnhildur Ásta Traustadóttir (4)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Meinafræðideild Landspítala, 2. Lífvisindasetur, 3. Læknadeild Háskóla Íslands
Kynnir / Presenter: Weronika Klaudia Wróbel
Miklar framfarir hafa orðið í meðferð brjóstakrabbameina undanfarin ár, meðal annars vegna tilkomu líftæknilyfja, sem bætt hefur lífshorfur verulega. Prótíntengd lyf (e. drug conjugate) eru prótínsameindir, með áföstum lyfjum, sem hafa sértæka sækni í ákveðinn vaka sem finnst á yfirborði krabbameinsfruma. Þekktustu tegundir prótíntengdra lyfja eru mótefni með áföstum lyfjum (e. antibody drug conjugates). Eitt helsta vandamálið við notkun þessara lyfja í krabbameinsmeðferð er hversu illa þau komast inn í krabbameinsæxli, aðallega vegna stærðar og lögunar. Vegna þessa hafa önnur prótíntengd lyf verið hönnuð, þar sem prótínsameindirnar eru minni og hagkvæmari í framleiðslu. Brjóstakrabbamein hefur verið mikið rannsakað í tvívíðum (2D) frumumódelum. Þessi módel endurspegla hins vegar ekki samskipti á milli frumna og umhverfis á sama hátt og þrívíð (3D) frumumódel. Í þessari rannsókn höfum við sett upp samræktarfrumumódel (e. co-culture) í 3D með brjóstakrabbameinsfrumum og NK frumum ónæmiskerfisins sem líkir eftir krabbameinsæxlum í líkamanum og samspili þeirra við ónæmiskerfið. Við munum nota módelið til að meta hversu djúpt prótínsameind, sem hefur sækni í annars vegar NK frumur og hins vegar viðtaka á krabbameinsfrumunum, kemst inn frumumódelið á ákveðnum tíma og við mismunandi styrk. Enn fremur munum við rannsaka hversu vel prótínsameindin getur virkjað NK frumurnar í að ráðast gegn krabbameinsfrumunum, miðað við sértækt mótefni.