Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025
Erindi/veggspjald / Talk/poster V16
Höfundar / Authors: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir (1) og Maciej Lipiński (2)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Náttúrufræðistofnun á Akureyri, 2. Uniwersytet Przyrodniczy we Wrocławiu
Kynnir / Presenter: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir
Fyrstu sveppirnir í Surtsey fundust á rekaviði vorið 1965, næstu voru úr rakri ösku og hrauni við gufuop og fylgdu með þörungum sem ræktaðir voru árið 1968. Síðan hafa upplýsingar um sveppi í Surtsey safnast upp ýmist þar sem leitað var að sveppum eða þeir fundust fyrir tilviljun og sýni komust í sveppasafn Náttúrufræðistofnunar eða í önnur sveppasöfn. Fyrsti hattsveppurinn fannst 1971 en reyndist vera flétta Lichenomphalia sp. Fyrstu víðiplönturnar fundust 1995 en alls er vitað um 10 plöntur grasvíðis, gulvíðis og loðvíðis og eru það einu plönturnar í eyjunni sem tengjast sveppum með útrænni svepprót. Silkiroðla, Entoloma sericeum, var áberandi á grösugum svæðum í máfavarpinu. Árið 2008 var safnað sinu nokkurra plantna auk lifandi blaða með blettum sem í gæti verið vöxtur sníkjusveppa og í ár var hluti þess efnis rannsakaður og þykir full ástæða til að kanna betur smásveppi sem sníkja á plöntum og rotsveppi sem brjóta niður dauða plöntuhluta. Farið er yfir þær tegundir sveppa sem fundist hafa í Surtsey og líklegt hlutverk þeirra í lífríki eyjarinnar.