Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025
Erindi/veggspjald / Talk/poster V15
Höfundar / Authors: Starri Heiðmarsson
Starfsvettvangur / Affiliations: Náttúrustofa Norðurlands vestra
Kynnir / Presenter: Starri Heiðmarsson
Væntanlegt fléttutal listar þær fléttur og fléttuháðu sveppi sem fundnir eru á Íslandi. Útgáfa listans er mikilvægur áfangi í flétturannsóknum á Íslandi og byggir á ævistarfi Harðar Kristinssonar sem hóf að taka listann saman snemma á áttunda áratug síðustu aldar. Fléttufunga Íslands er fjölbreytt, listinn telur rúmlega 800 fléttutegundir og rétt um 140 tegundir fléttuháðra sveppa auk þess sem tilteknar eru nokkrar undirtegundir og afbrigði. Ríflega helmingur íslenskra fléttna eru steinvaxandi, þriðjungur þeirra vex á jarðvegi og um 12% eru ásætur á trjám og runnum en viðbúið er að fjölga muni í þeim hópi með aukinni útbreiðslu skóga. Fjallað verður um tilurð listans, fjölbreytni fléttufungu Íslands borin saman við nágrannalöndin og stuttlega gerð grein fyrir flokkun íslenskra fléttna og þróunarsögu. Gildi vísindasafna vegna grunnrannsókna á fungu landsins verður rætt auk þeirra tækifæra sem sameindafræðilegar aðferðir bjóða við rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika.