Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025
Erindi/veggspjald / Talk/poster E99
Höfundar / Authors: Olga Kolbrún Vilmundardóttir (1), Rannveig Thoroddsen (1) og Matthías S. Alfreðsson (1)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Náttúrufræðistofnun
Kynnir / Presenter: Olga Kolbrún Vilmundardóttir
Ljóslitar skeljasandstrendur eru einkennandi fyrir sunnanvert Snæfellsnes og Vestfirði. Ofan þeirra er skeljasandur að miklu leyti móðurefni jarðvegs sem er fátítt hér landi. Töluverð líkindi eru við svokallaða machair vistgerð sem einvörðungu finnst á norðvestanverðum Bretlandseyjum. Vegna fágætis og sérstæðs lífríkis er machair á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar í Evrópu. Ein forsenda hennar er að skeljasandur sé meginuppistaðan í jarðveginum. Til að kanna hvort machair vistgerðina væri að finna hér á landi var gróðurfar, jarðvegur, dýralíf og fleiri umhverfisþættir kannaðir í tilgátuvistgerðinni skeljasandsengjum á Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum. Mælingar á gróðri og jarðvegi fóru fram sumarið 2023 og söfnun smádýra sumarið 2025. Skeljasandsengi einkenndust af snöggu, gisnu og stundum deigu graslendi þar sem túnvingull var ríkjandi tegund, talsverður mosi í sverði og úrval blómjurta ríkulegt. Á skeljasandsengjum var jarðvegur yfirleitt ríkur af kalsíumkarbónati og sýrustig í kringum 7 eða hærra. Úrvinnsla úr smádýrasýnum er á byrjunarstigi en fyrstu niðurstöður benda til þess að smádýralífið sé nokkuð fjölbreytt og tiltölulega tegundaríkt. Samanburður á machair við skeljasandsengi sýnir mikil líkindi hvað varðar lífríki, jarðveg og landslag. Vafi leikur á hvort loftslag og landnýting uppfylli skilyrði. Verndargildi skeljasandsengja sem vistgerðar á Íslandi er að líkindum töluvert.