Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025
Erindi/veggspjald / Talk/poster E98
Höfundar / Authors: Járngerður Grétarsdóttir (1), Ágústa Helgadóttir (2), og Rannveig Thoroddsen (1)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Náttúrufræðistofnun, 2: Land og skógur
Kynnir / Presenter: Járngerður Grétarsdóttir
Frá árinu 2012 hefur verið fylgst með ástandi gróðurs við jarðvarmavirkjanir á Hellisheiði og Nesjavöllum fyrir Orku Náttúrunnar, en jarðvarmavirkjanir losa efni út í andrúmsloftið með útblástursgufu og sum þeirra geta haft mengandi áhrif á umhverfið. Mosaþembur eru ríkjandi í námunda við virkjanirnar og hefur sérstaklega verið fylgst með ástandi hraungambra (Racomitrium lanuginosum) sem myndar mosaþemburnar. Jafnframt voru tekin sýni af hraungambra og gerðar efnagreiningar á þungmálmum og brennisteini í sýnunum en mosar safna í sig efnum sem þeir taka beint upp úr andrúmsloftinu. Vöktunin var endurtekin árin 2017 og 2022. Niðurstöður sýna að mosaþekjan er að langmestu leyti órofin ennþá í vöktunarreitum. Almennt voru færri skráningar á skemmdum á mosaþekju árið 2022 samanborið við fyrri ár. Skemmdum efst í mosaþekjunni hefur þó fjölgað á tímabilinu. Þær voru mjög mistíðar og algengari í reitum fjarri virkjunum. Margt bendir til að meginorsök þeirra sé af veðurfarslegum toga. Tíðni dökkra mosaskemmda, neðarlega í mosaþekjunni, hefur minnkað á vöktunartímabilinu. Þær voru tíðastar í reitum næst Nesjavallavirkjun. Sýndu efnamælingar og fylgniútreikningar að í sömu reitum var hár styrkur af brennisteini í sýnum og er líklegt að skemmdirnar stafi af brennisteinsmengun. Brennisteinsstyrkur í mosasýnum við Hellisheiðarvirkjun hefur lækkað frá 2017 og er að öllum líkindum í takt við minni útblástur. Styrkur þungmálma í mosasýnum við virkjanirnar var í langflestum tilvikum lágur.