Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025
Erindi/veggspjald / Talk/poster E87
Höfundar / Authors: Tómas Árnason
Starfsvettvangur / Affiliations: Hafrannsóknastofnun
Kynnir / Presenter: Tómas Árnason
Ísland er leiðandi í framleiðslu á eldisbleikju í heiminum. Þrátt fyrir að bleikja hafi lægra seltuþol en flestar aðrar tegundir laxfiska er hún að mestu leyti alin í ísöltu vatni á Reykjanesi. Þar er ferskvatn af skornum skammti og því einkum nýtt til seiðaframleiðslu fram að 100–200 g, þegar lífmassi eldisins er tiltölulega lítill. Á seinni stigum eldisins er bleikjan yfirleitt að alin í ísöltu vatn með seltu á bilinu 10–20 ppt þar til sláturstærð er náð. Með aukinni framleiðslu á Reykjanesi eykst eftirspurn eftir ferskvatni, sem kallar á að annaðhvort sé vatnið endurnýtt eða seiðin flutt fyrr í ísalt vatn. Í þessu verkefni var seinni kosturinn kannaður. Tvær rannsóknir voru framkvæmdar í Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar. Markmið þeirrar fyrri var að bera saman langtíma eldisárangur seiða sem flutt voru annaðhvort snemma (8 g) eða seint (180 g) í ísalt vatn (20 ppt). Í seinni rannsókninni var framkvæmd sería af skammtímatilraunum þar sem bleikjuseiði af mismunandi stærðum (0,06–80 g) voru alin við mismunandi seltustig. Niðurstöður beggja rannsókna sýna að bleikjuseiði þrífast vel við tiltölulega há seltustig. Þessar niðurstöður eru gagnlegar bæði fyrir þróun bleikjueldis á Íslandi og til að auka skilning á aðlögunarhæfni bleikjunnar í náttúrunni.