Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025
Erindi/veggspjald / Talk/poster E8
Höfundar / Authors: Snæbjörn Pálsson1, Jóhannes Sturlaugsson2
Starfsvettvangur / Affiliations: 1: Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands 2: Laxfiskar ehf
Kynnir / Presenter: Snæbjörn Pálsson
Á undanförnum árum hefur laxeldi í opnum sjókvíum aukist stórlega. Rannsóknir hafa sýnt að slíku sjókvíaeldi fylgir umhverfisvá vegna mengunar, laxalúsa og fisksjúkdóma og ekki síst vegna erfðamengunar villtra laxastofna á landsvísu. Erfðablöndun norskra laxa sem sleppa úr sjókvíum hér við land og taka þátt í hrygningu með villtum laxi í ám landsins getur skert aðlögun stofnanna sem hefur mótast frá landnámi þeirra eftir síðasta jökulskeið og vegur því að tilvistargrundvelli þeirra. Til að meta ágengni sjókvíaeldislaxa í íslenskum ám og erfðablöndun, og erfðafræðilega aðgreiningu innan og á milli áa þá hefur fyrirtækið Laxfiskar safnað sýnum af 1205 löxum víðsvegar af landinu frá 2015 og látið greina breytileika í rúmlega 20 þúsund breytilegum sætum úr erfðamengjum þeirra (e. radseg). Hér greinum við frá aðgreiningu og skyldleika laxa úr íslenskum ám, erfðablöndun við eldislaxa og tíðni eldislaxanna út frá niðurstöðum þessara rannsókna. Niðurstöðurnar sýna skýran mun á arfgerð villtra íslenskra laxa og norsku sjókvíaeldislaxanna sem hafa einsleitari arfgerðarsamsetningu. Í mörgum ánna fundust merki um erfðablöndun sjókvíaeldislaxa og villtra laxa og sömuleiðis seiði sem var arfhreinn eldislax. Arfgerðir villtu laxastofnanna aðgreindu sig skýrt á grunni ánna en dæmi fundust þó um að tveir laxastofnar væru til staðar í sömu ánni. Rannsóknir og verndaraðgerðir þurfa að taka mið af sérkennum íslenskra laxastofna þar með talið arfgerðum þeirra.