Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025
Erindi/veggspjald / Talk/poster E54
Höfundar / Authors: Ásta Margrét Ásmundsdóttir
Starfsvettvangur / Affiliations: Háskólinn á Akureyri
Kynnir / Presenter: Ásta Margrét Ásmundsdóttir
Hreinsun skólps á Íslandi er mjög ábótavant. Orðatiltækið; lengi tekur sjórinn við, er oft viðhaft og margir telja að ekki sé þörf á skolphreinsun á Íslandi að sama marki og víðast annarsstaðar. Í þessu sambandi hefur verið bent á að Ísland er eyja með Atlantshafið allt um kring, landið strjálbýlt og tiltölulega fámennt. Ísland hefur ekki uppfyllt reglugerð Evrópusambandsins um hreinsun skólps og nýtir sér undanþáguákvæði sem gilda um síður viðkvæma viðtaka. Þessi skilgreining á strandsvæðum í kring um landið hefur undanfarin ár verið véfengd og eru viss svæði undir smásjá vegna þess. Könnun meðal íbúa á Akureyri sýndi að fólk er almennt ekki upplýst um hvort eða hvernig skolp er meðhöndlað í þeirra heimabyggð og hvaða afleiðingar léleg skolphreinsun getur haft á umhverfið og heilsu íbúanna. Lítill þrýstingur er frá almenningi og stjórnvöldum á Íslandi um úrbætur jafnvel þó að ástandið í skolpmálum sé víða slæmt. Í fyrirlestrinum verður farið yfir stöðu skolpmála í landinu. Kynntar verða nokkrar rannsóknir á áhrifum skolps á umhverfið á Íslandi. Einnig verða kynntar niðurstöður mælinga á fjölónæmum örverum, lyfjaleifum, saurgerlum og örplasti í skólphreinsistöð við Klettagarða í Reykjavík og niðurstöður bornar saman við skólphreinsistöðvar í Noregi og Finnlandi. Í lok fyrirlestursins verður rýnt til framtíðar í ljósi nýrra reglugerða Evrópusambandsins sem gera sífellt meiri kröfur um hreinsun skólps og reglulegar mælingar á áhrifum þess á umhverfið og heilsu fólks.